Sjöunda heitasta ár frá upphafi

Gríðarleg eyðilegging eftir fellibylinn Haiyan.
Gríðarleg eyðilegging eftir fellibylinn Haiyan. AFP

Árið 2013 er sjöunda heitasta ár frá upphafi mælinga en þær hófust árið 1850. Árið hefur m.a. einkennst af öfgum í veðri, m.a. hinum gríðarlega öfluga fellibyl Haiyan sem lagði stór svæði á Filippseyjum í rúst, að því er fram kemur í upplýsingum Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar, WMO.

Uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aukið á hlýnun jarðar og mun óhjákvæmilega halda því áfram að sögn framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Michel Jarraud. Hann segir að miðað við fyrstu níu mánuði ársins sé árið 2013 það sjöunda heitasta frá upphafi mælinga. Hitinn hafi mælst 0,48 gráðum meiri í ár en að meðaltali á árunum 1961-1990.

Jarraud telur að árið í heild muni mælast að minnsta kosti meðal þeirra tíu heitustu frá upphafi, að því er fram kemur í frétt Reuters.

mbl.is