Meðal 25 áhugaverðustu vefmyndavéla heims

Jökulsárlón séð úr vefmyndavél Mílu.
Jökulsárlón séð úr vefmyndavél Mílu.

Vefmyndavél Mílu á Jökulsárlóni hefur verið valin í hóp 25 áhugaverðustu vefmyndavéla heims af vefsíðunni www.earthcam.com. Er þetta í annað sinn sem vélin hlýtur þennan heiður, en árið 2011 varð hún einnig fyrir valinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mílu.

Þar segir, að þetta sé í 15 skipti sem EarthCam standi fyrir valinu á 25 áhugaverðustu vefmyndavélum heims, en þúsundir vefmyndavéla um allan heim eru tilnefndar.

„Fyrir valinu stendur dómnefnd, ásamt forráðamönnum síðunnar. Það er því mikill heiður og stór viðurkenning að komast í þennan hóp,“ segir í tilkynningunni.

„Míla hóf uppsetningu vefmyndavéla fyrir um fjórum árum þegar gosið á Fimmvörðuhálsi hófst. Vélarnar eru staðsettar víðsvegar um landið, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Eins og áður segir hefur vefmyndavélin á Jökulsárlóni vakið mesta athygli, enda verið valin ein af 25 áhugaverðustu vefmyndavélum heims í tvígang. Auk hennar er Míla meðal annars með vefmyndavélar á Þingvöllum, á Austurvelli í miðbæ Reykjavíkur, við Reykjavíkurtjörn, við Heklu, við Eyjafjallajökul, á Gullfossi, á Akureyri og við tjörnina í Reykjavík. Nýjasta viðbótin er norðurljósavél sem staðsett er á Úlfljótsvatnsfelli,“ segir ennfremur.

Vefmyndavél Mílu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert