Mannsnefið nemur trilljón lyktartegundir

Franskur dómari í brauðkeppni þefar af brauði.
Franskur dómari í brauðkeppni þefar af brauði. AFP

Mannsnefið getur getur greint yfir trilljón mismunandi lyktartegundir samkvæmt nýrri rannsókn. Samkvæmt niðurstöðunum getum við greint mun fleiri tegundir en áður var talið. Hingað til hefur því verið haldið fram að maðurinn geti greint um 10 þúsund mismunandi tegundir lyktar.

Grein um rannsóknina var birt í Science og fjallað er um hana á vef Guardian.

„Rannsóknin okkar sýnir að lyktarskyn manna getur gert upp á milli mun fleiri lyktartegunda en áður var talið,“ segir Andreas Keller við Rockefeller-háskóla, sem fór fyrir rannsókninni. 

Nokkuð flókið er að meta lyktarskyn mannfólks. Hver lykt er yfirleitt samsett úr mörgum efnum og það eykur enn á flækjuna.

Vísindamennirnir bjuggu til lyktartegundir sem voru á margan hátt líkar og athuguðu hvort þátttakendur í rannsókninni gætu greint á milli þeirra. Notuð voru 128 efni til að búa til þrjá flokka af lykt en í hverjum þeirra voru 10-30 undirflokkar.

Þátttakendur fengu svo þrjú lyktardæmi til að þefa af. Tvö þeirra voru eins en það þriðja örlítið öðruvísi. 

26 tóku þátt í tilrauninni og var mjög misjafnt hversu vel þeim tókst að greina mun á líkri lykt. Keller segir að erfðir spili hugsanlega stóran þátt í lyktarskyni fólks.

Niðurstaða Kellers og félaga var sú að mannsnefið gæti greint á milli trilljón mismunandi lyktartegunda en vísindamennirnir telja þó að það gæti verið vanmat.

Keller segir að sjálfsagt skipti það þó engu máli í hversdagslífinu. Þar skiptir máli að geta greint á milli afgerandi lyktar, s.s. hvort þú ert að þefa af banana eða jarðarberi.

Þess má geta að trilljón er þúsund billjarðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert