Óráðlegt að búa til norðurljós

Gríðarlegt afl býr í Norðurljósunum, um 100 GW skv. lauslegum ...
Gríðarlegt afl býr í Norðurljósunum, um 100 GW skv. lauslegum útreikningum Þorsteins. ESA/NASA/Alexander Gerst

Menn gætu tæknilega búið til norðurljós á himninum með því að skjóta stöðugum geisla leysis upp í 100 kílómetra hæð. Það krefst hins vegar afls sem er á við alla raforkuframleiðslu Þýskalands og myndi lýsa upp andrúmsloftið eins og upplýst stórborg, að sögn Þorsteins J. Halldórssonar, eðlisfræðings.

Lesandi Vísindavefsins sendi inn spurningu sem varðaði það hvort að mögulegt væri að búa til norðurljós á himninum með leysigeislum. Í svari Þorsteins kemur fram að þetta væri vissulega hægt með því að skjóta stöðugum geisla leysis upp í 100 kílómetra hæð og örva þannig þunnt lag af natríngasi. Það lag er alltaf til staðar og endurnýjast sífellt við uppgufun örsmárra loftsteina sem rekast á lofthjúpinn með miklum hraða.

Þetta væri hins vegar ekki sérlega hagkvæm leið til þess að framleiða norðurljós þar sem útreikningar Þorsteins benda til þess að um 100 gígavött af stöðugu rafmagnsafli þyrfti til að framleiða manngerð norðurljós. Það er á við alla rafaflsframleiðslu Þýskalands. Til samanburðar er öll rafaflsframleiðsla á Íslandi 2,5 gígavött.

Myndi lýsa upp andrúmsloftið eins og upplýst stórborg

Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn að þetta sýni hversu gífurlegt afl sé á ferðinni í norðurljósunum. Þó að tæknilega væri hægt að framleiða norðurljós þá væri tilkostnaðurinn svo mikill að það myndi aldrei borga sig. Þar að auki hefði það að beina svo sterkum leysigeislum upp í lofthjúpinn aukaverkanir í för með sér.

„Þetta myndi lýsa meira eða minna allt andrúmsloftið upp svo það væri ekkert skynsamlegt. Ljós dreifist í andrúmsloftinu. Það er sama með leysiljósið. Ef þú skýtur svona öflugu leysiljósi upp í andrúmsloftið þá lýsir það náttúrulega upp umhverfið líka. Sá bjarmi yrði alveg töluverður, eins og upplýst stórborg sem færi af stað. Það væri náttúrulega truflandi fyrir náttúruna og manneskjur,“ segir hann.

Hægt væri þó að komast í kringum þetta vandamál með því að skjóta geislunum frá geimnum ofan á lofthjúpinn.

Þorsteinn segir að hægt væri að ímynda sér að einhvern tímann í framtíðinni væri hægt að virkja norðurljósin. Menn hafi þegar sett fram hugmyndir um að koma upp sólarrafhlöðum á braut um jörðina og rafmagnið yrði svo sent til jarðarinnar með örbylgjum eða jafnvel leysigeislum.

Niðurstaða hans um manngerð norðurljós er síðan sú að skynsamlegast væri að reisa svonefnd stjörnuver (e. planetariaum) á Íslandi þar sem hægt væri að varpa myndum af norðurljósum á þakhvelfinguna. Það væri mun skynsamlegri aðferð til búa til norðurljós en leysigeislarnir.

Svar Vísindavefsins um manngerð norðurljós

mbl.is
Leysiboy til sölu.
Leysiboy stóll til sölu kr.17,000,- uppl. 8691204....
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Mikið úrval. Á mynd er silfurpar með alexandrite-steini sem gefur mikið litaflóð...
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...