Venjulegur dagur á skrifstofunni

Margir fyllast leiða í vinnunni þegar þeir eru með sama umhverfið í kringum sig dag eftir dag. Ólíklegt er að bandaríski geimfarinn Terry Virts fyllist sömu tilfinningu en NASA hefur birt magnaða mynd af starfsumhverfi hans. Þar sést hann að störfum utan við Alþjóðlegu geimstöðina með jörðina og sólina sem byrjuð er að rísa upp fyrir sjóndeildarhring hennar fyrir aftan sig.

Virts og félagi hans Barry Wilmore fóru í geimgöngu á laugardag og hófu framkvæmdir við geimstöðina sem á að gera fleiri geimförum kleift að leggjast að henni. Gangan tók sex klukkustundir og 41 mínútu og tengdu þeir rúma 90 metra af leiðslum á meðan á henni stóð. Þeir munu svo endurtaka leikinn á morgun ef allt fer eftir áætlun og halda framkvæmdunum áfram.

mbl.is