Fékk mjaðmagrind úr títan

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ítalskur táningur hefur gengist undir aðgerð þar sem hálfri mjaðmagrindinni var skipt út fyrir íhluti úr títan. Aðgerðin fór fram á háskólasjúkrahúsinu í Tórínó, en um er að ræða fyrstu aðgerð sinnar tegundar í heiminum.

Sjúklingurinn er 18 ára ungmenni sem þjáist af beinkrabbameini. Hann hefur verið í lyfjameðferð undanfarið ár, en skurðlæknar ákváðu að róttækari úrræða væri þörf ef hann ætti að ná bata.

Aðgerðin tók ellefu og hálfa klukkustund, en í henni fjarlægðu læknar hálfa mjaðmagrind sjúklingsins og skiptu út fyrir bandaríska íhluti úr títan, húðaða málminum tantal. Tantal tærist ekki og er aðallega notaður í rafeindabúnað.

Að sögn lækna gekk aðgerðin afar vel, en sjúklingurinn gengst nú undir öfluga meðferð til að aðlagast nýju grindinni.

mbl.is