Vetrarbraut yfir Reynisfjöru

Reynisdrangar standa hnarreistir upp úr sjónum og fylgjast með milljörðum stjarna Vetrarbrautarinnar hverfa í morgunroðann á mynd sem franski ljósmyndarinn Stephane Vetter tók nú í febrúar. Myndin er mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum.

Eins og kemur fram á Stjörnufræðivefnum er vetrarbrautaslæðan sem sést á myndinni ekki samfelld heldur klofin af dökkum skýjum. Þessi dökku ský eru kalt gas og ryk — hráefni í nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Bjartasta stjarnan á myndinni er Vega í Hörpunni en lengra til vinstri sést önnur björt stjarna, risastjarnan Deneb í Svaninum. Við hlið hennar, vinstra megin í stefnu klukkan átta, glittir í rauðleitt ský, Norður-Ameríkuþokuna. Þar eru nýjar stjörnur að myndast úr kalda gasinu og rykinu.

Vetter hlaut meðal annars verðlaun fyrir bestu myndina í alþjóðlegri ljósmyndakeppni árið 2011 fyrir mynd sem hann tók af norðurljósunum yfir Jökulsárlóni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert