Brostið hjarta Plútós

Falslitamyndir af Plútó og Karoni. Þær ýkja liti til að …
Falslitamyndir af Plútó og Karoni. Þær ýkja liti til að draga fram smáatriði á yfirborði hnattanna. NASA

Svæðið sem nefnt hefur verið „hjartað“ á Plútó er greinilega brostið. Á falslitamyndum sem eitt mælitækja New Horizons hefur tekið af hnettinum sést að helmingur hjartans hefur aðra efnasamsetningu en hinn. Geimfarið lætur fyrst vita af sér eftir framhjáflugið í dag klukkan rúmlega eitt í nótt.

Falslitamyndirnar sem New Horizons tók af Plútó og stærsta tunglinu Karoni var tekin með Ralph-myndavélinni. Litirnir hafa verið ýktir til að draga fram smáatriði á yfirborðum hnatta sem væru illmerkjanlegir á hefðbundnum litmyndum, að því er kemur fram á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins.

„Myndir sem þessar eru notaðar til að efnagreina ísinn á yfirborðinu. Eins og sjá má eru bæði yfirborðin litrík sem segir okkur að gerð og efnasamsetning þeirra eru fjölbreytt. Sem dæmi er „hjartað“ á Plútó greinilega brostið, þ.e. helmingur þess hefur annars konar efnasamsetningu en hinn. Norðurpóllinn á Karoni, sem er dökkur í sýnilegu ljósi, er rauður hér, sennilega vegna flókinna kolefnasambanda. Sömu efni gera Plútó rauðbrúnan,“ segir í færslu Stjörnufræðivefsins.

Stjórnendur New Horizons hafa ekkert samband haft við farið frá því í gærkvöldi til að það gæti einbeitt sér að vísindastörfum. Búist er við að fyrsta merkið frá því berist til jarðar klukkan rúmlega eitt í nótt. Fyrst þá munu menn vita hvort að allt sé í lagi með geimfarið eftir framhjáflugið sem átti sér stað rétt fyrir hádegi að íslenskum tíma í dag. Fréttir verða sagðar af því hér á mbl.is eftir því sem þær berast.

Hér sjást falslitamyndir af Plútó og Karoni, útbúnar úr gögnum frá Ralph myndavélinni. Búið er að ýkja litina til að...

Posted by Stjörnufræðivefurinn on Tuesday, 14 July 2015
mbl.is