Konur leiða Discovery-áætlunina

Dvergreikistjarnan Ceres eins og hún kom fyrir sjónir geimfarsins Dawn ...
Dvergreikistjarnan Ceres eins og hún kom fyrir sjónir geimfarsins Dawn í júní. Dawn er hluti af Discovery-áætlun NASA. AFP

Fjórum af fimm könnunarleiðöngrum sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA mun gera upp á milli fyrir næsta hluta Discovery-áætlunar sinnar er stjórnað af konum. Leiðangrarnir fimm varða rannsóknir á Venusi og smástirnum.

Tilkynnt var um þær fimm tillögur að leiðöngrum sem kemur til greina að skjóta á loft árið 2021. Discovery-áætlun NASA gengur út á að senda ódýr könnunargeimför til sérhæfðra rannsókna í sólkerfinu. Áætluninni var komið á fót árið 1992 og hefur á annan tug geimfara verið skotið á loft síðan, þar á meðal MESSENGER sem kannaði Merkúríus og Dawn sem kom að dvergreikistjörnunni Ceresi fyrr á þessu ári.

Alls bárust 27 tillögur að leiðöngrum. Tvær af tillögunum sem voru valdar til úrslita snúast um rannsóknir á reikistjörnunni Venusi en hinar þrjár um leiðangra til að kanna smástirni. NASA mun velja eina eða tvær þeirra í september á næsta ári og verður geimförunum skotið á loft árið 2020 eða 2021.

Leita að hættulegum smástirnum

Verkefnin VERITAS og DAVINCI stefna á rannsóknir á Venusi. Geimförum væri annars vegar ætlað að mynda og kortleggja allt yfirborð reikistjörnunnar í hárri upplausn og hins vegar að svífa niður í gegnum þykkan lofthjúpinn, meðal annars til að kanna hvort að virk eldfjöll sé að finna þar. Stjórnendur beggja leiðangranna væru konur.

Smástirnaverkefnin þrjú eru fjölbreytt. Psyche-leiðangrinum yrði ætlað að fljúga að smástirninu Psyche í smástirnabeltinu sem vísindamenn telja að sé málmkenndur kjarni reikistjörnu sem náði aldrei að fullmyndast.

NEOCam er innrauður geimsjónauki sem yrði komið fyrir í svonefndum Lagrange-punkti 1 á milli jarðarinnar og sólar þar sem hann myndi reyna að finna smástirni sem geta verið hættuleg jörðinni.

Hugmyndin að baki Lucy-verkefninu er að senda geimfar svonefnd Trójusmástirni sem ganga um sólina á sömu braut og Júpíter og eru talin vera leifar frá bernsku sólkerfisins. Það er jafnframt eina verkefnið sem kemur til greina sem karlmaður stjórnar.

Lesa má nánar um Discovery-tillögurnar á vefsíðunni Space.com

mbl.is
Vélbörur
Það er ekkert sem stoppar þennan nema klaufaskapur. Skoðaðu öll tækin á www.har...
Til sölu spónlagðar plötur eik, mahogan
Til sölu spónlagðar plötur eik, mahogany og beyki, 60 x280 cm. 16 mm þykkar. Ver...
Byggingaverktakar - Byggingastjórn - Meistarar - Eignaskiptayfirlýsingar
Byggingaverktakr - Byggingastjórn - Húsasmíðameistari - Eignaskiptayfirlýsingar ...
Til sölu panelklæðning 16 mm þykk, þeku
Til sölu panelklæðning 16 mm þykk, þekur 12.5cm. Verð kr. 550 lm án vsk. Uppl. s...