Tengdu skaddaðar taugar upp á nýtt

Aðferðin nýtist þeim sem eru með mænuskaða við lið C6 …
Aðferðin nýtist þeim sem eru með mænuskaða við lið C6 og C7.

Læknar við Washington háskóla í St. Louis hafa náð góðum árangri í meðferð sjúklinga með mænuskaða sem hafa lamast fyrir neðan háls. Læknarnir komu aftur á taugasambandi milli heilans og vöðva í höndum og handleggjum sjúklinganna með því að tengja óþarfar taugar fyrir ofan mænuskaðann við vöðva á öðrum stöðum í höndum sjúklingsins og juku þannig hreyfifærni þeirra.

Ekki er um að ræða lækningu á mænuskaðanum en rakin eru dæmi af sjúklingum sem gengust undir aðgerðina og öðluðust á ný ákveðna færni. Níu aðgerðir voru teknar saman í rannsókninni og í öllum tilvikum öðluðust einstaklingarnir aukna færni.

Aðferðin sem slík er ekki ný en þetta mun vera í fyrsta sinn sem henni er beitt í einstaklingum með mænuskaða. Hægt var að ná árangri með aðferðinni þótt langur tími væri liðinn frá því að mænuskaðinn átti sér stað.

Lítil skref en þó stór

Þó aðeins hafi náðst takmarkaður árangur með aðferðinni enn getur þó verið um vatnaskil að ræða fyrir einstaklingana sem um ræðir. Það fylgir lömuninni til dæmis að geta ekki haft stjórn á eigin hægðum og þvagláti. Einstaklingur sem öðlaðist færni til þess að geta sett upp sinn eigin þvaglegg öðlaðist því aftur talsverða reisn með því að þurfa ekki að reiða sig á aðstoðarfólk við það.

Einn sjúklingur, 72 ára karlmaður, öðlaðist aftur færni til þess að fæða sig sjálfur, en hann hafði lamast tveimur árum áður. Læknarnir tóku heilbrigðan vef úr upphandlegg hans, tengdu við lamaða taug sem stjórnaði klípuhreyfingu handarinnar og gerðu honum þannig kleift að hreyfa þumal- og vísifingur.

Umfjöllu á laboratoryequipment.com

Greinin í heild

mbl.is