Risaloftsteinagígur undir Skotlandi?

Kenningar eru um að mikill loftsteinn hafi rekist á jörðina …
Kenningar eru um að mikill loftsteinn hafi rekist á jörðina þar sem nú er þorpið Lairg í skosku hálöndunum. Myndin er úr safni. Mynd/NASA

Breskur steingervingafræðingur telur sig hafa fundið gíg eftir risavaxinn loftstein, stærri en þann sem grandaði risaeðlunum, undir stórum hluta skosku hálandanna. Gíginn telur hann að minnsta kosti 40 kílómetra að þvermáli og að hann hafi skollið á Skotlandi fyrir 1,2 milljörðum ára.

Jarðfræðingar frá Oxford og Aberdeen fundu vísbendingar um risavaxinn loftsteinaárekstur í formi grænna bergbrota inni á milli rauðra sandsteinslaga nærri Ullapool í Vestur-Ross á skosku hálöndunum árið 2008. Kenningin er að græna bergið hafi verið bráðið berg sem loftsteinninn hafi þyrlað upp.

Dr. Mike Simms, safnvörður í steingervingafræði Ulster-safnsins í Belfast á Norður-Írlandi, lagðist í kjölfarið yfir jarðfræðileg kort af Skotlandi. Hann segist nú hafa fundið miðpunkt árekstursins undir þorpinu Lairg í Sutherland sem er helst þekkt fyrir stærsta sauðfjármarkað Evrópu að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þá segist hann hafa getað reiknað út hversu stór gígurinn er og telur orkan sem áreksturinn leysti úr læðingi hafi jafnast á við 1.500 milljarða tonna sprengiefnis. Áreksturinn hafi verið um 940 milljón sinnum öflugari en kjarnorkusprengingin í Hiroshima. Fjallað verður um fullyrðingar Simms í þætti á sjónvarpsstöðinni Channel 4 í Bretlandi um þarnæstu helgi.

Í frétt skoska blaðsins The Scotsman kemur fram að Simms telur að loftsteinninn hafi getað verið þrír kílómetrar að þvermáli. Þannig hafi „Lairg-loftsteinninn“ verið stærri en sá sem talið er að hafi grandað risaeðlunum fyrir um 65 milljónum ára. Hann hafi skollið á jörðinni á 65.000 kílómetra hraða á klukkustund og grafið sig allt að átta kílómetra niður í skorpu jarðarinnar.

Eigi kenningar Simms við rök að styðjast væri loftsteinninn í Lairg einn alstærsti loftsteinagígur sem fundist hefur á jörðinni.

Frétt The Scotsman

Frétt BBC

mbl.is