Eins og að pissa peningum

Margir telja að betra sé að fá helstu vítamín og …
Margir telja að betra sé að fá helstu vítamín og steinefni úr fæðunni. Ljósmynd / Getty Images

Vítamín koma að gagni sem meðferð við ákveðnum skorti en flestir þeirra sem taka fjölvítamín eru að greiða fyrir kostnaðarsöm þvaglát, segir forseti læknasamtaka Ástralíu (Australian Medical Association), Michael Gannon, í samtali við Guardian.

Sjö af hverjum tíu Áströlum taka vítamín en sérfræðingar hafa efasemdir um virkni þeirra og eins hversu mikil áhersla er lögð á sölu á vítamínum í lyfjaverslunum.

Prófessor við læknadeild Monash-háskólans, Ken Harvey, segir í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina að litlar sönnur hafi verið færðar fyrir því að fjölvítamín geri nokkurt gagn. Með því að kaupa fjölvítamín sé fólk að auka hagnað lyfjafyrirtækjanna án þess að fá nokkuð gagn af inntökunni. 

„Það sem þú þarft á að halda er gott fæði. Þú pissar peningunum niður í klósettið án þess að græða nokkuð á því,“ segir Harvey í viðtali við ABC.

Aftur á móti segja framleiðendur vítamína að fjölvítamín séu af hinu góða þar sem stór hluti áströlsku þjóðarinnar borði ekki nægjanlega hollan mat. Vítamín og steinefni geti skipt sköpum fyrir þau 52% þjóðarinnar sem ekki borða ráðlagðan dagskammt af ávöxtum eða þau 92% sem ekki borða ráðlagðan dagskammt af grænmeti, segja framleiðendur vítamína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert