Heilsu kóralrifanna hrakar

Kafari skoðar kóralrif í Rauðahafinu.
Kafari skoðar kóralrif í Rauðahafinu. AFP

Kóralrifum heimsins stafar ógn af endurteknum tímabilum hlýs sjós sem um þau streymir. Við rannsókn á 100 kóralrifum kom í ljós að síðustu áratugi hefur sífellt styttra verið á milli fölnunar þeirra. Er breytingin sögð gífurleg í grein um rannsóknina sem birt er í Science. Áður fölnuðu rifin með um 25-30 ára tímabili en nú er svo komið að slíkir atburðir gerast á um sex ára fresti.

Fölnunin verður er afbrigðilega hlýtt vatn umlykur rifin í lengri tíma. Kór­al­ar eru afar viðkvæm­ir fyr­ir langvar­andi hlý­ind­um. Þegar þeir of­hitna losa þeir sig við þör­unga sem lifa í sam­býli við þá og sjá þeim fyr­ir orku með ljóstil­líf­un. Við það fölna kór­al­arn­ir og geta drep­ist ef hlý­ind­in vara í lengri tíma.

En þó að hlýindin gangi fljótt til baka þá getur það tekið kóralrif mörg ár að jafna sig að fullu.

„Ef þú ferð inn í hringinn með hnefaleikamanni í þungavigt þá getur þú mögulega staðið af þeir eina lotu en þegar önnur lota hefst þá ertu búinn að vera,“ segir Mark Eakin, vísindamaður hjá bandarísku Haf- og loftslagsstofnuninni, NOAA. Hann segir að niðurstöður rannsóknanna á kóralrifjunum rími við niðurstöður loftslagslíkana sem notaðar eru til að spá fyrir um hlýnun jarðar. Samkvæmt þeim munu kóralrifin fölna nær árlega vegna hlýnunar sjávar. Hann segir að sumar rannsóknir bendi til að hraðað hafi verulega á hlýnun jarðar. Kuldatímabil La Niña og El Niño veðurfyrirbrigðanna séu núna hlýrri en hlýskeið þeirra fyrir þremur áratugum. „Það eru í raun engin köld ár lengur, það eru bara ár sem eru ekki of heit.“

Gegna veigamiklu hlutverki

Kóralrifin eru ekki aðeins mjög falleg á að líta. Þau gegna veigamiklu hlutverki í lífríki sjávar og segja má að afkoma milljóna manna byggi á því að rifin séu „hraust“.

Sem dæmi þá veita rifin strandsvæðum vernd fyrir stórum öldum og flóðum. Þau eru líka útungunarstöð fyrir margar fisktegundir og aðrar sjávarlífverur.

Í rannsókninni sem birt er í Science kemur fram að kóralrifin verði fyrir fleiri áföllum en af völdum hlýrri sjós. Þannig hafi mengun og ofveiði einnig skemmandi áhrif.

Terry Hughes, prófessor og sérfræðingur í kóralrannsóknum í Ástralíu og aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir nauðsynlegt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að efla á ný heilsu rifjanna. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert