Áhrif agnarsmáa mannsins á jörðina

80% sjávarspendýra hafa horfið úr sjónum á þeim 300 árum …
80% sjávarspendýra hafa horfið úr sjónum á þeim 300 árum sem menn hafa stundað hvalveiðar. mbl.is/Alfons Finnsson

Ein stærsta úttekt sem gerð hefur verið á umfangi lífs á jörðinni sýnir að mannkynið er samtímis smávægilegasta og mest ráðandi tegund lífs á jörðinni. Þeir 7,6 milljarðar manna sem lifa á jörðinni standa nefnilega ekki fyrir nema 0,01% af þeim lífsmassa sem finnst á jörðinni, en síðan siðmenning manna hófst hafa 83% allra villtra spendýra og helmingur plantna horfið af jörðinni.

Greint er frá niðurstöðum úttektarinnar á vef Guardian, en þær birtust upphaflega í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Forsvarsmaður verkefnisins, prófessorinn Ron Milo hjá Weisman-vísindastofnuninni í Ísrael, segist hafa verið hissa á að ekki hafi verið til yfirgripsmikil gögn um skiptingu lífsmassa jarðarinnar.

„Ég vona að þetta gefi fólki nýtt sjónarhorn á það hversu ríkjandi hlutverki mannkynið gegnir á jörðinni,“ segir Milo. Hann hefur í kjölfarið minnkað kjötneyslu sína vegna gríðarlegra umhverfislegra áhrifa landbúnaðar.

60% allra spendýra er búfé, 4% eru villt

Niðurstöður úttektarinnar, sem byggir á niðurstöðum hundruða rannsókna, sýna að ræktaðir alifuglar eru 70% allra fugla á jörðinni, en aðeins 30% fugla eru villtir. Raunar eru breytingar á jörðinni vegna þessa svo gríðarlegar að vísindamenn eru á barmi þess að lýsa yfir nýju jarðfræðitímabili, meðal annars vegna magns beina landbúnaðarfugla í jarðveginum.

Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Þegar kemur að spendýrum eru tölurnar enn meira afgerandi. 60% allra spendýra sem nú lifa á jörðinni er búfé, mennirnir eru 36% og villt dýr því aðeins 4% allra spendýra.

Margir vísindamenn kalla þá eyðileggingu landsvæðis villtra dýra vegna landbúnaðar, skógarhöggs og þróunar sjöttu stóru fjöldaútrýmingu lífs í sex milljarða ára langri sögu jarðarinnar. Helmingur allra dýra er talinn hafa dáið út á síðustu 50 árum. Aðeins einn sjötti hluti villtra spendýra hafa lifað af og aðeins fimmtungur sjávarspendýra eftir hvalveiðar síðustu þriggja alda.

Kú, kú, kú, kjúklingur

„Þegar ég púsla með dætrum mínum, þá er venjulega mynd af fíl við hliðina á gíraffa við hliðina á nashyrningi. Ef ég ætti að gefa þeim raunsærri mynd af heiminum þá ætti myndin að vera af kú við hliðina á kú við hliðina á kú og svo kjúklingur,“ segir Milo.

Ljósmynd/Styrmir Kári

Þrátt fyrir yfirburði mannsins er hann agnarsmár með tilliti til massa. Vírusar vega samtals þrefalt meira en allt mannfólkið á jörðinni, og það sama á við um orma. Fiskar eru samtals tólf sinnum þyngri, skordýr 17 sinnum, sveppir 200 sinnum, bakteríur 1.200 sinnum og plöntur 7.500 sinnum þyngri.

Allt líf á jörðinni samanstendur að mestum hluta af plöntum, eða 82%. 13% eru síðan bakteríur og hin 5% eru allt annað líf. Manneskjur eru aðeins 0,01% af öllu lífi á jörðinni.

Áhrif mannsins á jörðina eru gríðarleg.
Áhrif mannsins á jörðina eru gríðarleg. AFP

Má sérstaklega rekja til mataræðis

Samt sem áður eru áhrif okkar á jörðina gríðarleg. Ástæður þess má sérstaklega reka til mataræðis okkar. „Ég ætla að vona að fólk taki mark á þessari vinnu og aðlagi hana heimsmynd sinni og neysluvenjum,“ segir Milo. „Ég er ekki orðinn grænmetisæta, en ég tek mark á umhverfisáhrifum í ákvarðanatöku minni, og það fær mig til að hugsa, langar mig í að velja nauta- eða alifuglakjöt eða langar mig að nota tófú í staðinn?“

Hér má kynna sér úttektina í heild sinni eins og hún birtist í Proceedings of the National Academy of Sciences. Í grein Guardian má finna áhugaverðar skýringarmyndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka