Börnin njóti vafans

Afleiðingar heilaáverka, til dæmis höfuðverkur, þreyta, einbeitingarerfiðleikar, kvíði og depurð, …
Afleiðingar heilaáverka, til dæmis höfuðverkur, þreyta, einbeitingarerfiðleikar, kvíði og depurð, geta haft áhrif á flesta þætti daglegs lífs út ævina. mbl.is/Golli

Algengasta orsök heilahristings og alvarlegri heilaáverka er höfuðhögg en jafnvel létt högg, eins og að skalla bolta, getur komið hreyfingu á vefi heilans. Langtímaafleiðingar heilaáverka geta verið höfuðverkur, svimi, þreyta, minnis- og einbeitingarerfiðleikar, kvíði og depurð. Þær geta því haft áhrif á flesta þætti daglegs lífs.

Sífellt fleiri sérfræðingar vilja banna skallabolta hjá börnum og segja þessi endurteknu högg á höfuðið, sem skallaboltar eru, geta haft alvarlegar afleiðingar sem aldrei ganga til baka.

Skallaboltar ekki fyrir börn

Dr. Jónas G. Halldórsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, segir að skallaboltar, hvort sem er á æfingum eða í leikjum, séu varasamir fyrir börn.

Jónas G. Halldórsson.
Jónas G. Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

„Börn eru með tiltölulega þunna og viðkvæma höfuðkúpu, sem ver heilann ekki eins vel og höfuðkúpa fullorðinna. Svona skallaboltar geta orðið nokkuð margir á æfingu eða í fótboltaleik svo þetta safnast upp, þannig að jafnvel þótt höggin séu létt og börnin rotist ekki eða fái einkenni heilahristings, þá er þetta endurtekið áreiti á heilann,“ segir Jónas. „Það er alls ekki æskilegt og getur valdið sjúklegum viðbrögðum í heilanum og jafnvel skaða, sem hefur áhrif á heilaheilsu, hugræna heilsu og getur valdið þrálátum einkennum. Auk þess eru skallaboltar líka álag á hálsinn. Umræðan á undanförnum árum í Bandaríkjunum og víðar hefur verið að banna skallabolta barna, tíu ára og yngri, á æfingum og í leikjum og að takmarka skallabolta fyrir börn á aldrinum ellefu til þrettán ára. Aðrir vilja ganga enn lengra.“

Bennett Omalu, einn helsti sérfræðingur heims í heilaskaða, varð fyrstur til að sýna fram á tengsl heilabilunar við endurtekin höfuðhögg og heilaáverka. Hann mælist til þess að skallabolti verði bannaður hjá börnum yngri en átján ára. Fleiri sérfræðingar hafa tekið undir með Omalu og árið 2015 sendi stjórn bandaríska knattspyrnusambandsins út þau tilmæli til allra fótboltafélaga í landinu að banna ætti börnum yngri en tíu ára að skalla bolta og takmarka slíka bolta við 30 mínútur á viku fyrir börn á aldrinum ellefu til þrettán ára. Sama fyrirkomulag hefur einnig verið til umræðu í Englandi.

Endurtekningin verst

Jónas segir rannsóknir hafa verið gerðar á hnefaleikurum sem keppa í ólympískum hnefaleikum. Þær gefi til kynna að endurtekin höfuðhögg komi starfsemi heilans úr jafnvægi, jafnvel þótt þau séu ekki sérlega þung og valdi ekki skertri meðvitund eða einkennum heilahristings. Vísbendingar um sjúklegar breytingar á starfsemi heilans hafi fundist í mænuvökva hnefaleikamanna að lokinni keppni og voru þær þeim mun meiri eftir því sem keppandi hafði hlotið fleiri höfuðhögg í bardaganum. „Þannig að jafnvel þótt þessi endurteknu högg séu ekkert endilega sérlega þung koma þau starfsemi heilans úr jafnvægi og heilinn þarf að hafa fyrir því að koma á jafnvægi að nýju. Það getur tekið nokkurn tíma og á meðan getur fólk fundið fyrir aukinni þreytu, úthalds- og einbeitingarerfiðleikum og fleiri einkennum.“

Jónas bendir á að börn og unglingar eigi mögulega erfiðara með að sjá tengsl milli áverka og einkenna og kvarti síður, eða á annan hátt, en fullorðnir. Einnig geti metnaður valdið því að þau geri minna úr einkennum en ástæða væri til.

Að sögn Jónasar eiga allir á hættu að verða fyrir höfuðhöggi og fá heilahristing, hvort sem er í boltaleik eða við aðrar aðstæður. Sem betur fer þoli heilinn slíkt að ákveðnu marki og fólk nái sér í flestum tilfellum vel á tiltölulega stuttum tíma. „En eftir því sem höfuðhöggin verða fleiri, og eftir því sem þau verða þyngri, þeim mun meiri líkur eru á að höfuðhögg valdi skaða á heilavef og alvarlegri afleiðingum og einkennum til lengri tíma. Börn eru viðkvæmari fyrir afleiðingum höfuðhöggs og heilaáverka en fullorðnir,“ segir Jónas.

Finnst þér þá að það ætti að banna skallabolta alveg hjá börnum?

„Já, ég er sammála umræðunni erlendis um að banna eigi skallabolta í fótbolta þegar um er að ræða börn og unglinga, hvort sem er á æfingum eða í keppni. Höfuðkúpan hefur ekki náð fullum styrkleika. Heilinn er viðkvæmur fyrir þessum endurteknu höfuðhöggum. Og það skortir á líkamlegan styrk, einbeitingu og færni við að skalla boltann, sem getur skipt verulegu máli.“

Jónas segir að í þessari umræðu megi þó ekki gleyma mikilvægi hreyfingar og íþrótta fyrir þroska og heilsu barna og ungs fólks. „Það þarf hins vegar að leitast við að komast hjá meiðslum eins og hægt er og þar er heilinn alls ekki undanskilinn.“

Engin ákvörðun verið tekin

„Þetta snýst allt um að börnin njóti vafans,“ segir Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ. Hann segir enga ákvörðun hafi verið tekna um hvort börnum og unglingum hér á landi verði bannað að nota skallabolta á æfingum og í keppni, líkt og gert hefur verið í Bandaríkjunum, en segir að KSÍ fylgist vel með umræðunni. „Við bíðum bara átekta. Við vitum að bæði FIFA (Alþjóðaknattspyrnusambandið) og UEFA (Evrópska knattspyrnusambandið) eru að skoða þessi mál. KSÍ er á tánum og ef þessi stóru sambönd koma með nýjar leiðbeiningar um þetta förum við eftir þeim.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert