Brotist inn í 50 milljónir Facebook-aðganga

Ekki er vitað hverjir stóðu að baki árásinni eða hvar …
Ekki er vitað hverjir stóðu að baki árásinni eða hvar þeir halda sig. AFP

Galli í öryggisstillingum Facebook sem uppgötvaðist í vikunni gerði netþrjótum kleift að taka yfir aðganga tæplega 50 milljóna notenda samfélagsmiðilsins. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, segir að verkfræðingar fyrirtækisins hafi frétt af gallanum á þriðjudag og var málið tilkynnt til lögreglu.

Gallinn tengist möguleikanum „View as,“ þar sem notendur geta séð hvernig aðrir notendur sjá prófíl þeirra. Öryggisstillingar voru hins vegar ekki eins og þær áttu að vera og gátu netþrjótar stolið aðgangsmerkjum, eins konar stafrænum lykli, sem hægt var að nota til að komast inn á aðgangana. Facebook hefur lokað á „View as“-möguleikann tímabundið. 

Guy Rosen, yfirmaður öryggismála hjá Facebook, staðfestir í samtali við breska ríkisútvarpið að búið sé að laga gallann. Rannsókn sé hins vegar á byrjunarstigi og ekki sé vitað hvort netþrjótarnir hafi notað aðgangana sem þeir brutust inn í eða hvort þeim hafi tekist að komast yfir einhverjar upplýsingar.

Ekki er vitað hverjir stóðu að baki árásinni eða hvar þeir halda sig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert