Óttast nýja tegund skógarelda

Skógareldar hafa verið gríðarlega miklir síðustu mánuði í Kaliforníu.
Skógareldar hafa verið gríðarlega miklir síðustu mánuði í Kaliforníu. AFP

Gríðarlegir þurrkar, skordýraplágur og léleg umhirða í skógum hafa orðið til þess að á síðustu árum hafa milljónir trjáa í vesturhluta Bandaríkjanna drepist, þar af um 130 milljónir í Kaliforníu einni saman. Þessi dauðu tré hafa svo orðið eldsmatur í feykilegum gróðureldum síðustu ár. 

Ástandið versnaði svo um munaði í sumar er hundruð milljóna hektara lands brunnu í nokkrum ríkjum á vesturströnd Bandaríkjanna. Í síðustu viku brunnu enn gróðureldar á 71 stað. 

Og ástandið gæti enn átt eftir að versna. Fyrr á þessu ári vöruðu sérfræðingar við nýrri tegund skógarelda sem gæti orðið hættulegri en þeir eldar sem við höfum þekkt hingað til. Þar kemur trjádauðinn til sögunnar, ekki síst dauði barrtrjáa. Trén hafa m.a. drepist vegna þurrka og skordýraplága. 

Tryggja þarf heilbrigði skóganna og stundum ætti að leyfa skógareldum …
Tryggja þarf heilbrigði skóganna og stundum ætti að leyfa skógareldum að loga, segir vísindamaður sem rannsakað hefur eðli skógarelda. AFP

Í Sierra Nevada-fjöllunum í Kaliforníu nemur skógareyðingin á sumum svæðum um 90% og hafa yfirvöld lýst yfir neyðarástandi.

Hvað varðar sambandið milli trjádauðans og fjölgunar skógarelda þá verður að taka tillit til margra og flókinna þátta, segir Brandon Collins, vísindamaður við Berkley-háskóla, sem hefur gefið út bók um efnið. „Einfaldasta túlkunin er sú að fleiri dauð tré þýði meiri eldsmatur og að þá séu líkur á að eldarnir verði ákafari og breiðist hraðar út,“ útskýrir Collins. 

En hins vegar breytist grunneðli skógareldanna ekki endilega við þetta. Fleira þarf að koma til.

Með tímanum falla nálar dauðu bartrjánna til jarðar og hefta þannig jafnvel útbreiðslu elda trjáa á milli. Þetta gæti orðið til þess að draga úr eldum í trjákrónunum að sögn Collins.

En með tímanum getur ástandið versnað því að 10-15 árum liðnum falla dauð tré til jarðar. „Þá er allur bolurinn á jörðinni og skógareldarnir breytast. Þannig geta skapast skilyrði fyrir stóra elda sem hafa mikil áhrif á andrúmsloftið. Þetta eru eldar sem hafa sprengikraft.“

Þeir gjósa hratt upp og eru óútreiknanlegir. Logarnir breiðast ekki út á milli trjákrónanna heldur með jörðinni þar sem þeir finna sannkallað eldsneyti. „Þetta eru eldar sem breiðast út með allt öðrum hætti en við þekkjum hingað til. Við getum ekki einu sinni náð tökum á þeim í sýndarlíkönum okkar.“

Í allt sumar hafa skógareldar kviknað víðs vegar á vesturströnd …
Í allt sumar hafa skógareldar kviknað víðs vegar á vesturströnd Bandaríkjanna. Skógarnir eru þurrir eftir löng þurrkatímabil sem rakin eru til loftslagsbreytinga. AFP

Trjádauðann má aðallega rekja til grimmilegs vítahrings sem loftslagsbreytingar valda, þ.e. langvarandi þurrka sem valda mikilli eyðileggingu. Við þessar aðstæður verða trén berskjaldaðri fyrir plágum af ýmsum toga, s.s. vegna fjallaskógarbjöllunnar sem lagst hefur á tré á allri vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada. Bjallan verpir undir trjáberkinum.

En burtséð frá þessum nýtilkomnu vandamálum var ástand bandarískra skóga bágborið fyrir að sögn Collins. Hann segir að viðhaldi þeirra hafi verið illa stjórnað.

Hann gagnrýnir m.a. þá aðferðafræði að reyna að slökkva alla gróðurelda hvað sem það kosti. Það hafi leitt til þéttari skóga sem eru ósjálfbærir.

Hann er þeirrar skoðunar að suma skógarelda eigi ekki að slökkva. „Þeir geta hreinsað til í skógunum án þess að drepa öll trén,“ segir Collins og bendir á að um ákveðið náttúrulögmál sé að ræða. 

Skógarstofnun Bandaríkjanna sagðist á síðasta ári ætla að leggja áherslu á að grisja skóga til að auka heilbrigði þeirra svo þeir verði betur í stakk búnir til að lifa af skógarelda. 

Í fyrra fóru um 56% þeirra fjármuna sem stofnunin hefur yfir að ráða í slökkvistarf. 

„Það kostar sífellt meira að slökkva eldana og á sama tíma er minna fé varið til viðhalds skóganna svo að þeir geti tekist á við skógarelda og þurrka,“ sagði í skýrslu stofnunarinnar um málið í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert