Sýnataka erfiðari en talið var

Geimfarið er ómannað og á að taka sýni af smástirninu. …
Geimfarið er ómannað og á að taka sýni af smástirninu. Vísindamenn vona að sýnin varpi ljósi á upphaf lífs á jörðinni. AFP

Ómannað geimfar NASA, OSIRIS-REx, kom að smástirninu Ranu í desember eftir rúmlega tveggja ára ferð frá jörðinni en bandaríska geimvísindastofnunin segir nú að miklu erfiðara verði að ná meginmarkmiðinu með leiðangrinum en vísindamenn töldu.

Geimfarið er nú um fimm kílómetra frá smástirninu og hefur notað tæki sín til að kortleggja yfirborð þess. Stefnt hefur verið að því að geimfarið fari að yfirborði smástirnisins í júlí á næsta ári og noti fjarstýrðan búnað með griparm til að taka sýni af því án þess að lenda. Aðgerðin á aðeins að taka fimm sekúndur og krefst mikillar nákvæmni. Þangað til á geimfarið að rannsaka yfirborðið og leita að hentugum stöðum til að taka sýni.

Stjórnendur leiðangursins segja að yfirborð smástirnisins sé þakið stórum steinum og björgum og höfðu þeir búist við því að það væri sléttara. Geimfarið var hannað með það fyrir augum að það gæti notað slétt svæði með 25 metra radíus til að taka sýni en myndir frá farinu sýna að svo stórt svæði án steina er hvergi að finna á smástirninu.

Stefnt að meiri nákvæmni

Stjórnendur leiðangursins hafa þó ekki hætt við sýnatökuna og ætla að gefa sér meiri tíma til að undirbúa hana og tryggja að hægt verði að nota búnaðinn af meiri nákvæmni en gert var ráð fyrir. „Við ætlum að hæfa miðdepilinn í skotskífunni,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Richard Burns, sem stjórnar verkefninu.

Bennu er í um 85 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Á smástirninu eru meira en 200 björg sem eru stærri en tíu metrar að þvermáli, sum allt að 30 metrar, að því er fram kemur í grein vísindamanna í tímaritinu Nature Astronomy. Þar eru einnig margir gígar sem eru 10 til 150 metrar á lengd.

Smástirnið hefur lítið breyst frá því að það myndaðist og vísindamenn vona að sýni úr því varpi ljósi á myndun sólkerfisins fyrir um 4,6 milljörðum ára og uppruna lífrænna efnasambanda sem urðu til þess að líf kviknaði á jörðinni. bogi@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert