Sævar fékk „væna gæsahúð“

Event Horizon Telescope (EHT) eða Sjóndeildarsjónaukinn – risaröð átta samtengdra ...
Event Horizon Telescope (EHT) eða Sjóndeildarsjónaukinn – risaröð átta samtengdra útvarpssjónauka – var búinn til til þess að taka mynd af svartholinu sem hér má sjá.

„Það er ekkert nema dásamleg tilfinning að sjá mynd af þessu merka fyrirbæri í fyrsta skipti,“ segir Sævar Helgi Bragason, fulltrúi Íslands hjá Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO), um fyrstu ljósmyndina af svartholi sem tekin hefur verið og birt var í dag. Risaröð átta samtengdra útvarpssjónauka, sem nefnd er Sjóndeildarsjónaukinn, fangaði þessi fyrstu beinu og sýnilegu sönnunargögnin fyrir risasvartholi og skugga þess í geimnum.

„Það er líka gaman að sjá hvað Einstein hefur haft rétt fyrir sér, alltaf,“ segir Sævar. „Það er almenna afstæðiskenningin sem liggur til grundvallar svartholum og skilningi á þeim. Samkvæmt henni var til dæmis hægt að spá fyrir um það hvernig þau líta út og hvernig ljós ætti að sveigja þegar það ferðast í kringum slík fyrirbæri. Og [þessi uppgötvun nú] kemur allt heim og saman við það sem afstæðiskenningin segir. Það er gaman að því að náttúran hegði sér eins og einhver snillingur spáði fyrir um.“

Söguleg uppgötvun

Tilkynnt var um þessa sögulegu uppgötvun í vísindagreinum sem birtar voru í dag og á blaðamannfundum sem haldnir voru víða um heim, að því er fram kemur á heimasíðu ESO.

Svartholið er í miðju Messier 87, risasporvöluvetrarbraut í miðju Meyjarþyrpingarinnar. Svartholið er í 55 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni og er 6,5 milljörðum sinnum massameira en sólin okkar.

Svarthol eru gríðarlega massamikil en um leið lítil, framandi fyrirbæri. Þau hafa áhrif á umhverfi sitt með mjög öfgakenndum hætti því þau bjaga tímarúmið og ofurhita efni í sínu næsta nágrenni.

Mynduðu köngulóarvef um Jörðina

En hvaða máli skiptir það fyrir okkur að þekkja svarthol og hvað þá að eiga mynd af því?

„Svona dags daglega skiptir það okkur ekki einu einasta máli,“ segir Sævar. „En þetta er eitt og sér forvitnilegt og áhugavert og mikilvægur liður í því að reyna að skilja heiminn sem við búum í. Þetta eru fyrirbæri sem mörgum þykja mjög skemmtileg og spennandi. Við erum að ná þarna mynd af fyrirbæri sem menn töldu lengi vel að ómögulegt væri að mynda. Þannig að þetta er mikill sigur fyrir vísindin og þurfti samstillt átak meira en 200 vísindamanna um allan heim við að tengja saman sjónauka til þess að mynda köngulóarvef um alla Jörðina til að búa til auga á stærð við Jörðina.“

Sævar Helgi Bragason sá myndina af svartholinu fyrir nokkru síðan ...
Sævar Helgi Bragason sá myndina af svartholinu fyrir nokkru síðan og fékk gæsahúð. Hún var birt opinberlega klukkan 13 í dag að íslenskum tíma. mbl.is/ Kristinn Magnússon

Enn er mjög margt sem ekki er vitað um svarthol og hvernig þau haga sér.

„Þetta er einn lítill liður í því að skilja svona fyrirbæri sem hafa haft afgerandi áhrif á þróun til dæmis vetrarbrautarinnar sem við búum í og þannig haft áhrif á það að við erum hér til í alvörunni.“

Hvað erum við nákvæmlega að sjá á þessari mynd?

„Appelsínugula ljósið sem við sjáum er kleinuhringslöguð skífa sem er í kringum svartholtið sem er í miðjunni,“ útskýrir Sævar. „Svo erum við [í miðjunni] með skuggann af svartholinu sjálfu sem svartholið varpar á skífuna sem umlykur það. Svartholið sjálft er mun minna en skugginn gefur tilefni til að halda. Samt er svartholið risavaxið, það er 40 milljarða kílómetra í þvermál sem er eins og sjöföld fjarlægðin á milli sólarinnar og Plútó. Ég reiknaði það úti í gær að Voyager 1, hraðskreiðasta geimfar sem menn hafa smíðað, væri svona 74-75 ár að ferðast þá vegalengd.“

Sævar segir að skýringin á því að erfitt hefur reynst að mynda svarthol sé sú að í því er gríðarlegur efnisþéttleiki, í því er efni sem er jafn mikið og í 6,5 milljörðum sóla. „Jafnvel þótt það sé gífurlega þungt þá er það ótrúlega lítið í sjálfu sér, í stjarnfræðilegum skilningi.“

Þurfti að hemja sig

Ertu búinn að vera hugfanginn af þessari mynd frá því að hún birtist?

„Já, ég er svo heppinn að vera að vinna fyrir samtökin [ESO] sem tóku þátt í að taka myndina,“ svarar Sævar. „Þannig að ég sá hana fyrir nokkru síðan og fékk alveg væna gæsahúð og átti mjög erfitt með að hemja mig og sýna ekki öllum. Það eru kannski ekki allir jafn spenntir fyrir þessu og ég en þetta er ótrúlega skemmtilegt og áhugavert og gaman að vera uppi á tímum þar sem þetta er hægt. Það er nú ekkert svo langt síðan að við vissum ekki að þessi fyrirbæri væru til, hvað þá að við gætum tekið mynd af þeim.“

Svo er þetta líka fallegt...

„Já, mjög fallegt. Dularfull og stórbrotin fegurð og kannski líka ógnvekjandi í leiðinni. Því ef maður myndi detta inn í skuggasvæðið þá kæmist maður aldrei út aftur, þá væri maður farinn að eilífu! Slitinn í sundur af þyngdarkrafti,“ segir Sævar.

mbl.is
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
NUDD- LÁTTU ÞER LIÐA VEL.
Verð ekki við vinnu fyr en um eða eftir miðjan mars . SIMI 863-2909...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Til sölu kvk Hjól
2 ára kvk reiðhjól með háu stýri.Comfort style eins og nýtt. Keypt hjá Erninum....