La Liga sektað fyrir að hlera snjallsíma

Spænsku liðin Barcelona og Real Madrid mætast hér á Nou …
Spænsku liðin Barcelona og Real Madrid mætast hér á Nou Camp-vellinum. Forsvarsmenn La Liga, efstu deild­ar­inn­ar í spænsku knattspyrnunni njósnuðu um bari og veitingastaði sem sýndu frá leikjum deildarinnar með því að hlera snjallsíma þeirra sem notuðu La Liga-appið. Mynd úr safni. AFP

Forsvarsmenn La Liga, efstu deild­ar­inn­ar í spænsku knattspyrnunni, njósnuðu um bari og veitingastaði sem sýndu frá leikjum deildarinnar með því að hlera snjallsíma þeirra sem notuðu La Liga-appið. Breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá þessu og segir La Liga hafa fengið 250.000 evra sekt (rúmlega 35 milljóna króna) fyrir uppátækið.

Hafa forsvarsmenn La Liga þegar sagst ætla að áfrýja úrskurðinum fyrir dómstólum.

Í gegnum appið, sem notendur nýttu m.a. til að fylgjast með úrslitum deildarinnar, var kveikt á hljóðnema símans og svo hlerað hvort útsending af leikjum væri í gangi. Því næst var staðsetningarbúnaður símans notaður til að fá upp gefið hvar notandi símans væri staddur og þar með hvort sá staður hefði greitt áskriftargjöld deildarinnar, eða hvort um ólöglega útsendingu væri að ræða.

Það var spænska gagnaverndarstofnunin AEPD sem sektaði La Liga, eftir að upp komst að allt að 50.000 símar hefðu verið nýttir í þessum tilgangi. Segir í úrskurði AEPD að forsvarsmenn La Liga hafi gerst sekir um „mjög alvarlegt brot á gagnavernd“ með því að láta hjá líða að upplýsa notendur um að appið hefði virkjað hljóðnema síma þeirra.

Til þess að um löglega aðferð væri að ræða hefði La Liga þurft að tilkynna notendum appsins í hvert skipti sem hljóðnemarnir voru virkjaðir. Segir Daily Telegraph allt benda hins vegar til þess að með notkun appsins hafi La Liga náð að höfða mál gegn 600 spænskum börum og veitingastöðum sem sýndu ólöglega frá leikjum deildarinnar.

Forsvarsmenn La Liga hafa áður greint frá því að tap deildarinnar af réttindagreiðslum vegna útsendinga frá leikjum nemi um 400 milljónum evra árlega. Um helmingur allra þeirra 120.000 veitingahúsa sem sýni frá leikjunum kaupi ekki fyrirtækjaáskrift. Fjöldi þeirra noti ólöglegan útsendingarbúnað sem nokkrir staðir deili oft með sér og enn aðrir séu með heimilisáskrift sem er mun ódýrari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert