Geta hlýtt á guðsorð endurgjaldslaust

Hið íslenska Biblíufélag leiddi hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið …
Hið íslenska Biblíufélag leiddi hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið til hlustunar á snjalltækjum, snjallforritum og tölvum. Ljósmynd/Aðsend

Nýja testamentið á íslensku er nú í fyrsta skipti aðgengilegt til hlustunar á snjalltækjum og snjallforriti, hlustendum að kostnaðarlausu. Hægt er að hlusta á guðsorðið á biblíuappi Youversion og á Biblian.is, heimasíðu Hins íslenska biblíufélags. Opnað var fyrir aðgang í morgun. 

Hið íslenska biblíufélag leiddi hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið til hlustunar á snjalltækjum, snjallforritum og tölvum. „Staðreyndin er sú að lestur og athygli fólks hefur færst yfir á snjalltækin. Það eru fáir með biblíuna í vasanum en allir eru með símann í vasanum,“ segir Grétar Halldór Gunnarsson, formaður framkvæmdanefndar Hins íslenska biblíufélags.    

„Í auknum mæli er fólk að hlusta á bækur og við vildum hjálpa fólki að gera það sem það er þegar að gera með því að geta hlustað á Nýja testamentið sem er áhrifaríkasta rit menningarsögunnar,“ segir Grétar 

Lesarar eru leikararnir Arnar Jónsson, Kristján Franklín Magnúss, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir.

mbl.is