Google gerir gögn um ferðir fólks aðgengileg

Gögnin verða almenn og ópersónugreinanleg en munu sýna umferð fólks …
Gögnin verða almenn og ópersónugreinanleg en munu sýna umferð fólks um staði á borð við almenningsgarða, verslanir, heimili og vinnustaði. AFP

Tæknirisinn Google hefur ákveðið að opinbera gögn um ferðahegðun fólks í 131 landi til þess að auðvelda yfirvöldum að hafa yfirsýn yfir hegðun þegna sinna og taka ákvarðanir um aðgerðir til að sporna við kórónuveirufaraldrinum.

Fréttstofa AFP greinir frá málinu, en þar segir að upplýsingarnar sem gerðar verða aðgengilegar á sérstakri vefsíðu verði settar fram með svipuðum hætti og upplýsingar um umferð og umferðarteppur eru settar fram á Google Maps.

Þannig verða gögnin almenn og ópersónugreinanleg en munu sýna umferð fólks um staði á borð við almenningsgarða, verslanir, heimili og vinnustaði. 

Tómlegt á frönskum kaffihúsum

Þá munu gögnin ekki sýna nákvæman fjölda fólks sem farið hefur um hvern stað, heldur aðeins hvort umferð minnki eða aukist. Þannig sýna fyrstu gögn að í Frakklandi hafi heimsóknum fólks á kaffihús, veitingastaði, söfn og í verslunarmiðstöðvar minnkað um 88% miðað við það sem venjulegt er.

Frakkar eru þekktir fyrir blómlega kaffihúsamenningu.
Frakkar eru þekktir fyrir blómlega kaffihúsamenningu. AFP

Ferðum fólks í matvöruverslanir í Frakklandi fjölgaði um 40% þegar samkomubann var tilkynnt, en hefur svo fækkað um 72%.

„Við vonumst til þess að gögnin geti hjálpað til við að rökstyðja ákvarðanir um aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins,“ er haft eftir stjórnendum Google í tilkynningu vegna málsins.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir