Apple og Google taka höndum saman

Gamlir erkifjendur taka höndum saman á þessum síðustu og verstu.
Gamlir erkifjendur taka höndum saman á þessum síðustu og verstu. AFP

Tæknifyrirtækin Apple og Google kynntu í dag sameiginlegt verkefni sem miðar að því að auðvelda smitrakningu með hjálp snjallsíma. Hugmyndin er að símar frá Apple, iPhone, og símar sem keyra stýrikerfi Google, Android, muni geta skipst á upplýsingum sem geri notendum kleift að senda tilkynningar á síma þeirra sem hafa verið í námunda við þá liðnar vikur í gegnum opinber forrit heilbrigðisyfirvalda. Notendur þurfa þó sérstaklega að skrá sig til að taka þátt í verkefninu.

„Við hjá Apple og Google trúum því að aldrei hafi verið jafnmikilvægt að vinna saman að því að leysa brýnustu vandamál heimsins,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá fyrirtækjunum. Von er á að fyrsta skrefið verði tekið með uppfærslu stýrikerfa beggja framleiðenda í næsta mánuði.

Stjórnvöld í mörgum ríkjum vinna að því að koma sér upp forritum til að rekja smit og er nærtækasta dæmið vitanlega smitrakningarapp almannavarna, sem kom út í síðustu viku. 127.000 manns hafa sótt sér forritið.

Í stað þess að rekja staðsetningu símtækja, líkt og forrit almannavarna, er hugmyndin að nota Bluetooth til þess að safna upplýsingum um nálæg raftæki. Hvort sú tækni nýtist betur en forrit almannavarna hérlendis skal ósagt látið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert