Rannsaka íbúprófen við kórónuveirunni

Íbúfen og önnur bólgueyðandi lyf eru ekki hættuleg fólki sem …
Íbúfen og önnur bólgueyðandi lyf eru ekki hættuleg fólki sem er með COVID-19 kórónuveiruna. AFP

Vísindamenn eru að gera prófanir með íbúprófen og hvort lyfið geti komið sjúklingum á sjúkrahúsum að gagni sem glíma við kórónuveiruna.

Samkvæmt frétt BBC er teymi vísindamanna við King's College í samstarfi við tvö sjúkrahús í London og telja þeir að lyfið, sem er bæði bólgueyðandi og verkjastillandi, geti komið að gagni hjá þeim sem glíma við öndunarerfiðleika. Vonast er til þess að lyfið, sem kostar mjög lítið, geti komið í veg fyrir að setja þurfi sjúklinga í öndunarvélar.

Við lyfjaprófanirnar, sem nefnast Liberate, fær helmingur sjúklinga íbúfen til viðbótar við venjulega meðferð. Um er að ræða sérstaka blöndu ibúprófens í stað þess hefðbundna sem hægt er að kaupa í lyfjaverslunum. Lyfjablandan er þegar notuð af fólki með sjúkdóma eins og liðagigt.

Prófanir á dýrum benda til þess að lyfið gagnist við sjúkdómum sem leggjast á öndunarfæri, svo sem kórónuveirusjúkdómum. 

Fljótlega eftir að COVID-19 greindist voru uppi hugmyndir um að íbúfen gæti reynst fólki með lítil einkenni veirunnar hættulegt og ekki dró úr þessari upplýsingaóreiðu þegar franski heilbrigðisráðherrann, Oliver Veran, sagði að taka inn bólgueyðandi lyf eins og íbúfen gæti aukið veikindi fólks og ráðlagði fólki að taka frekar parasetamól. 

Þetta var fljótlega afsannað af sérfræðingum sem bentu á að íbúfen væri í góðu lagi fyrir þá sem væru með mild einkenni kórónuveirunnar alveg eins og parasetamól. Bæði lyfin gætu verið hitalækkandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert