Boðar endurskoðun á birtingarstefnu Facebook

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hefur boðað að fyrirtækið muni endurskoða reglur um birtingu efnis á samfélagsmiðlinum. Fyrirtækið hefur legið undir ámæli fyrir að leyfa umdeildum færslum Donald Trump Bandaríkjaforseta, þar sem hann virðist hvetja til ofbeldis, að standa óhaggaðar á miðlinum. Samkvæmt gögnum sem Washington Post hefur undir höndum hafa þúsundir starfsmanna fyrirtækisins lýst yfir óánægju með stefnu fyrirtækisins um að stjórnmálamenn séu undanskildir staðreyndaeftirliti (e. fact-checking) og reglum um hatursorðræðu.

Í bréfi sem Zuckerberg sendi starfsmönnum sínum í gær, og hann endurbirtir á opinni Facebook-síðu sinni, segir Zuckerberg að fyrirtækið muni „endurskoða mögulega kosti til að takast á við ofbeldisfullt eða hálf-ofbeldisfullt efni á annan hátt en að þurfa að leyfa efninu að standa eða taka það niður“. Má þá ætla að fyrirtækið hugsi sér að opna á möguleikann að geta merkt færslur á sérstakan hátt ef það telur þær brjóta gegn notendaskilmálum þess.

Zuckerberg segir jafnframt að unnið verði að því að gera ákvarðanatökuferli fyrirtækisins gagnsærra í slíkum málum, en bendir þó á að vegurinn sé vandrataður milli ritskoðunar heilbrigðra skoðanaskipta og falsfrétta. „Ef stjórnmálamenn deila um hvaða reglur eigi að gilda um póstkosningar í ólíkum ríkjum, hver ætti línan milli raunverulegra umræðna og tilrauna til að valda ruglingi og þagga niður í kjósendum,“ spyr Zuckerberg í færslunni, en samfélagsmiðillinn Twitter sá einmitt ástæðu til að merkja eina færslu Donalds Trump um póstkosningar sérstaklega sem „misvísandi“ eftir að forsetinn sagði póstkosningar ávísun á kosningasvindl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka