Twitter segir tíst forsetans misvísandi

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Twitter hefur í fyrsta sinn merkt tvö tíst frá Donald Trump Bandaríkjaforseta sem misvísandi. Samfélagsmiðillinn hefur lengi staðist kröfur um að ávíta forsetann vegna tísta sem mörg hver hafa falið í sér skítkast, móðganir og fölsk skilaboð.

Í umræddum tístum hélt Trump því fram, án þess að færa fyrir því nokkur rök eða sannanir, að kjörseðlar sem eru sendir heim til fólks leiði til kosningasvika og „spilltra kosninga“.

Undir tístunum setti forsetinn tengla þar sem stóð „Sækið staðreyndir um kjörseðla sem eru sendir í pósti“. Þar er bent á að CNN, Washington Post og fleiri fréttamiðlar hafi vitnað í sérfræðinga sem segja að kjörseðlar í pósti tengist afar sjaldan kosningasvikum.

Joe Scarborough á verðlaunaathöfn árið 2018.
Joe Scarborough á verðlaunaathöfn árið 2018. AFP

Neita að fjarlægja „hræðilegar lygar“

Í öðru máli sem tengist Trump hefur Twitter neitað að eyða tveimur tístum forsetans eftir að ekkill bað samfélagsmiðilinn opinberlega um að fjarlægja „hræðilegar lygar“ um dauða eiginkonu hans, að því er BBC greinir frá. 

Twitter hefur ekki viljað tjá sig um ummæli Timothy Klausutis en samfélagsmiðillinn segist vera „miður sín“ yfir sársaukanum sem ummæli forsetans ollu.

Trump hefur gefið í skyn, án þess að benda á nokkrar sannanir þess efnis, að Lori Klausutis hafi verið myrt árið 2001 af yfirmanni hennar Joe Scarborough, sem er þáttastjórnandi á MSNBC.

Eiginkona Scarborough og samstarfskona, Mika Brzezinski, gagnrýndu forsetann harðlega í síðustu viku vegna tístanna og sagði hann „veikan“. Einnig krafðist hún þess að Twitter fjarlægði tístin.

mbl.is