Veiruónæmið gæti verið meira en próf segja til um

AFP

Fólk sem fær neikvæðar niðurstöður úr mótefnamælingum vegna kórónuveirunnar gæti samt haft nokkuð ónæmi, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi. BBC greinir frá. 

Þátttakendur í rannsókninni voru annars vegar blóðgjafar og hins vegar fólk sem var í þeim hóp sem fyrst greindist með veiruna í Svíþjóð. Flestir þeirra smituðust á svæðum sem veiran breiddist fyrr út á, til dæmis á norður-Ítalíu. 

Fyrir hvern þann sem reyndust vera með mótefni voru tveir sem reyndust hafa sérstakar T-frumur sem bera kennsl á og eyðileggja sýktar frumur. Þær fundust jafnvel hjá fólki sem hafði einungis upplifað væg einkenni COVID-19 eða var einkennalaust. 

Ættu ekki að smitast aftur

Enn er þó óljóst hvort frumurnar verndi fólk einungis fyrir veirunni eða komi einnig í veg fyrir að fólk smiti aðra. 

Niðurstöður rannsóknarinnar gætu þýtt að stærri hópur en áður var talið sé að einhverju leyti ónæmur fyrir COVID-19. 

Líklegt er að fólkið sem mældist ekki með mótefni, einungis T-frumur, hafi á einhverjum tímapunkti haft í sér mótefni sem annað hvort hafði dofnað eða fannst einfaldlega ekki í prófinu. Þetta fólk ætti ekki að smitast af kórónuveirunni öðru sinni. 

mbl.is