Sex og hálfur tími í sjónvarpsgláp

Þættirnir um Joseph „Joe Exotic“ Maldonado, tígrana hans og ævintýri …
Þættirnir um Joseph „Joe Exotic“ Maldonado, tígrana hans og ævintýri þeirra hafa slegið rækilega í gegn á Netflix. AFP

Engum blöðum er víst um það að fletta að árið 2020 er það undarlegasta sem flest okkar hafa upplifað. Fjöldatakmarkanir, samkomubönn, tveggja metra regla, andlitsgrímur og enginn bumbubolti vikum saman. Eitt hefur þó ekki verið bannað – sjónvarpsgláp, og það hefur fólk vítt og breitt um heiminn fært sér í nyt.

Ný bresk rannsókn hefur leitt í ljós að meðal-bretinn varði 40% af sínum vökustundum fyrir framan sjónvarpið meðan heimsfaraldurinn náði hápunkti þar um slóðir í vor og sumar. Hafa ber í huga að Boris Johnson gekk mun lengra en Katrín Jakobsdóttir í varúðaraðgerðum sínum og Bretar þurftu um tíma að sæta útgöngubanni. Fyrir þá sem ekki eru með stígvél eða þrekhjól í vaskahúsinu er fátt annað í boði við þær aðstæður en gamla góða bókin eða sjónvarpið.

Og það síðarnefnda gerði gott mót en ef marka má téða rannsókn, sem þar til gerð eftirlitsstofnun með fjölmiðlum, Ofcom, gerði þá vörðu okkar bestu George og Georgina heilum sex klukkustundum og 25 mínútum í sjónvarpsgláp á dag meðan þau sættu útgöngubanni í apríl. Ekki fylgir sögunni hvað þau skötuhjú lásu löngum stundum enda hefur Ofcom mun minni áhuga á því. Þetta er tæplega þriðjungi meiri tími en George og Georgina vörðu í sömu iðju í apríl í fyrra, þegar þau lágu aðeins í hálfan annan tíma á dag yfir sjónvarpinu. Nú eða sátu. Það liggja ekki allir yfir sjónvarpinu enda þótt það sé alltaf freistandi og þægilegt, ekki síst ef menn eru vel sófaðir.

Samkvæmt rannsókninni hefur streymisveitum á borð við Netflix, Amazon Prime Video og Disney+ vaxið fiskur um hrygg á þessu ári og setja rannsakendur það í beint samhengi við ástandið í heiminum. Hefðbundnar sjónvarpsstöðvar bjóði upp á takmarkað efni og fyrir vikið hafi alþýða manna þurft að róa á önnur mið til að gyrða fyrir almenna sút og lífsleiða.
Í könnuninni kemur fram að áhorf meðal-bretans á streymisveitur losi nú rúma klukkustund á dag og í aldurshópnum 16 til 25 ára fari sá tími upp í tvær klukkustundir.

Það getur verið lífsspursmál fyrir heimili þessa heims að hafa …
Það getur verið lífsspursmál fyrir heimili þessa heims að hafa aðgang að vönduðu barnaefni á þessum síðustu og verstu tímum, svo sem Disney+. AFP


Tólf milljónir bættu við sig veitu

Rannsókn Ofcom sýnir að tólf milljónir Breta bættu við sig streymisveitu meðan á útgöngubanni stóð. Um 7 milljónir þeirra voru þegar með streymisveitu fyrir, um 2 milljónir voru hættar með þá þjónustu en tóku hana upp aftur og 3 milljónir tryggðu sér aðgang að streymisveitu í fyrsta sinn á ævinni.

Disney+ hefði ekki getað hafið göngu sína á betri tíma, 24. mars, daginn eftir að breska þjóðin fékk fyrirmæli um að halda sig heima. Á undraskömmum tíma er þessi nýja streymisveita komin með bronsið, á eftir Netflix og Amazon Prime Video. Hefur sumsé reykspólað fram úr bæði BBC iPlayer og Sky Now TV. Skýringin liggur svo sem í augum uppi; skólar voru lokaðir og eitthvað urðu foreldrar að finna handa ómegðinni að gera á meðan.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert