Fleiri en milljón spila íslenskan farsímaleik

Ljósmynd/CCP

Fleiri en milljón manns spila nú EVE Echoes, farsímaleik á vegum íslenska tölvuleikjaframleiðandans CCP, en leikurinn kom út þann 17. ágúst. Á fyrsta degi skráðu sig rúmlega 300 þúsund spilarar en Ragnar Kormáksson, vörumerkjastjóri EVE Echoes, segir að leikurinn hafi fengið mjög góðar viðtökur.

„Það er flókin útfærsla að taka leik sem hefur almennt verið talinn nokkuð flókinn á PC og færa hann yfir á síma, en það virðist hafa gengið nokkuð vel,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Leikurinn hefur verið í þróun síðan í lok árs 2017, og er framleiddur í samstarfi við kínverska tölvuleikjaframleiðandann NetEase, sem er leiðandi í framleiðslu tölvuleikja fyrir síma.

Ragnar Kormáksson, vörumerkjastjóri EVE Echoes.
Ragnar Kormáksson, vörumerkjastjóri EVE Echoes. Ljósmynd/Aðsend

„Ef við setjum þetta í samhengi við tölurnar frá EVE Online, þá erum við nánast komin með fleiri spilara daglega – sem sagt spilarar sem eru inni á sama tíma – og hæstu tölur sem við höfum fengið á EVE Online. Þetta sýnir einna helst hvað farsímamarkaðurinn gerir leiki aðgengilega,“ heldur hann áfram.

„Þær hugmyndir að maður geti ekki fært svona flókinn leik yfir á farsíma virðist vera mýta.“

Ragnar segir að spilarar virðist ekki vera að spila EVE Echoes á sama hátt og aðra farsímaleiki. Það sem einkennir spilamynstur í farsímaleikjum eru stuttar og margar tarnir, þar sem spilarar spila aðeins í nokkrar mínútur í senn.

„Við erum að sjá meðalspilunarlengd í leiknum fara yfir 100 mínútur. Spilarar eru að spila í klukkutíma og 40 mínútur í einni lotu,“ segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert