Niðurstöðurnar sanni ágæti tvöfaldrar skimunar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Styrmir Kári

Mótefni við kórónuveirunni í þeim sem smitast minnkar ekki á fyrstu fjórum mánuðum eftir sýkingu. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Íslensk erfðagreining gerði á mótefnamælingum í blóði rúmlega 30.000 Íslendinga.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir þetta góðar fréttir, ekki síst fyrir þær sakir að nú sé hægt að slá á áhyggjur fólks um endursmit. Hann segir niðurstöðurnar sanna ágæti þeirra aðgerða sem gripið var til á landamærum í ágúst vegna þess hve margir Íslendingar geti enn smitast.

Í samtali við mbl.is segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að góðar fréttir séu að rannsóknir fyrirtækisins hafi leitt það í ljós að mótefni smitaðra einstaklinga minnki ekki á fyrstu fjórum mánuðum eftir smit.

Niðurstöðurnar leiði meðal annars í ljós að finnist bóluefni við veirunni þurfi ekki sífellt að bólusetja alla þjóðina aftur. Eins slái þetta á áhyggjur fólks um endursmit sem Kári hefur áður sagt að sé ekki tilefni til.

Aðgerðir á landamærum eigi rétt á sér

Eins og fram kemur í tilkynningu ÍE til fjölmiðla leiðir rannsókn fyrirtækisins í ljós að 0,9% Íslendinga hafi smitast af kórónuveirunni og því eigi 99,1% landsmanna enn á hættu að smitast. Þess vegna hafi ákvörðun stjórnvalda um tvöfalda skimun á landamærunum verið góð, að sögn Kára.

„Það er mjög mikilvægt að skilja tvennt. Annars vegar er þessi sjúkdómur ekki búinn að vera til nema í átta mánuði og því er lítið vitað um hann. Þess vegna verðum við að safna gögnum um sjúkdóminn og leyfa gögnunum að leiðbeina okkur í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Það hefur verið gert og það er gott.“

„Hins vegar verður fólk að skilja að þegar landamæri voru fyrst opnuð á nýjan leik var það gert sem tilraun. Niðurstöður þeirrar tilraunar voru þær að herða þyrfti aðgerðir á nýjan leik. Fólk sem er mjög óánægt með að slíkt sé ekki planað langt fram í tímann verður að skilja að það er ekkert langtímaplan í þessu öllu saman. Við lærum meira um þessa veiru á degi hverjum og við tökum ákvarðanir út frá því.“

Komufarþegar síðustu daga í Leifsstöð hafa einungis verið um 600 …
Komufarþegar síðustu daga í Leifsstöð hafa einungis verið um 600 að meðaltali á dag, að sögn Páls Þórhallssonar, verkefnisstjóra hjá forsætisráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

Tilraunir annarra aðila „býsna óábyrgar“

Kári segir að þótt niðurstöður svona rannsókna séu tiltölulega einfaldar þá sé rannsóknin sjálf ansi flókin. Hann segir tilraunir annarra aðila til þess að standast í svipuðum rannsóknum ansi óábyrgar.

„Það hefur verið fjallað um að fyrirtækið Sameind taki það nú að sér að mæla mótefni í blóði,“ segir Kári, „en þau notast bara við eina mælingaraðferð á meðan við notumst við sex mælingaraðferðir. Það getur verið býsna óábyrgt að nota einungis eina mælingaraðferð þegar svona rannsóknir eru gerðar því þær geta gefið villandi niðurstöður.“

Helmingslíkur að ættingjar smiti hver annan

Daníel Fannar Guðbjartsson, tölfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar, er einn höfunda greinar sem birtist í The New England Journal of Medicine í kvöld, þar sem niðurstöður rannsóknarinnar eru kynntar. Kári tekur Daníel tali í myndbandi sem ÍE birti á dögunum og þar kemur fram að um 50% líkur séu á því að smitaður einstaklingur smiti einhvern sem hann er með til heimilis.

Því sé í raun rétt að skikka alla þá í sóttkví, sem umgangast einhvern sem er til heimilis með smituðum einstaklingi. Núverandi ráðstöfun, að skikka einungis í sóttkví fjölskyldu smitaðra og þá sem smitaði einstaklingurinn umgekkst, gangi því ekki nógu langt.

Myndbandið má finna hér.

Rannsóknir halda áfram

Líkt og niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós mynduðu 8,9% þeirra sem greindust með nef- og hálssýni ekki mótefni og þar af var um helmingur sem myndaði engin mælanleg mótefni. Rannsóknir standa nú yfir á svokölluðu frumubundnu ónæmi, þ.e. hvernig ónæmiskerfi þessara einstaklinga losuðu sig við kórónuveiruna án þess að mynda mótefni.

Kári reyndi að útskýra þetta fyrir blaðamanni mbl.is.

Frumubundið ónæmi, geturðu útskýrt þetta nánar?

„Sko. Ég skal reyna. Hvítu blóðkornunum í líkamanum, sem ráðast gegn óboðnum gestum eins og veirunni sem við glímum nú við, er skipt í tvo flokka: T-frumur og B-frumur. B-frumur búa til mótefni við óboðnum gestum en T-frumur ráðast á þá með beinum hætti. T-frumurnar búa sem sagt til annars konar efni en mótefni til þess að drepa veiruna. Og það er það sem við erum að rannsaka núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert