„Ekki sönnun á nokkrum sköpuðum hlut“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir vafasamt að draga þá ályktun að „venjulegt fólk“ geti sýkst aftur af kórónuveirunni. Hann gefur ekki mikið fyrir frétt New York Times um að karlmaður í Hong Kong hafi sýkst að nýju af veirunni. 

Samkvæmt frétt New York Times, þar sem vitnað er í tilkynningu háskólans í Hong Kong, er karlmaður á fertugsaldri sem á að hafa greinst aftur með kórónuveiruna, fyrsta staðfesta tilfellið þar sem einstaklingur smitast aftur af veirunni. 

Kári segir í samtali við mbl.is að vafasamt sé að draga nokkrar ályktanir af fréttinni. 

„Ef ég man rétt hafa í kringum 23 milljónir manna smitast af veirunni og þetta er eina frásögnin sem ég hef heyrt af um mann sem hefur sýkst aftur. Rannsókn sem er gerð þar sem fjöldi manna sem er skoðaður er einn, hefur ekki mikið vægi. Það er mjög vafasamt að draga þá ályktun á grundvelli þessa að venjulegt fólk geti sýkst aftur af þessari veiru.

Það er til dæmis ekki ólíklegt, ef þú horfir til þess mikla fjölda sem hefur sýkst, að sýnin hafi ruglast. Að annað af þessum tveimur sýnum úr þessum manni gæti hafa verið úr einhverjum öðrum,“ segir Kári. 

Ætti ekki að hafa áhrif á nálgun fólks á bóluefni 

Í frétt New York Times er einnig fjallað um að þessi tíðindi frá Hong Kong gætu valdið áhyggjum meðal þeirra sem nú kappkosta að þróa bóluefni við kórónuveirunni. Kári segist ósammála þessu. 

„Annað er það líka að það er eiginlega sama hver veirupestin er, þó menn verði ónæmir, myndi mótefni og svo framvegis, ef þeir lenda í að fá annan sjúkdóm sem vegur að ónæmiskerfi þeirra er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að þeir geti sýkst.

Það þýðir þó alls ekki að hinn venjulegi borgari sé í hættu á því að sýkjast aftur af veirunni og ég er algjörlega ósammála þeirri athugasemd sem sett er fram í grein New York Times, að þetta gefi framleiðendum bóluefnis ástæðu til að hafa áhyggjur. Það á ekki að hafa minnstu áhrif á það hvernig menn huga um bóluefni, að það skuli einn maður í Hong Kong hafa kannski og kannski ekki endursýkst af veirunni,“ segir Kári. 

Hann segir að fréttin sé til þess fallin að valda óþarfa áhyggjum meðal fólks. 

„Ég held að þessi frétt sé að mestu leyti þess eðlis að hún komi til með rugla menn, hún segir manni mjög lítið, hún er ekki sönnun á nokkrum sköpuðum hlut og er þess eðlis að vekja kannski miklu meiri áhyggjur meðal fólks en vissu um það hvernig þessi veira hegðar sér. Að þetta skuli vera forsíðufrétt New York Times er alveg með ólíkindum. Ég skil bara ekki hvað er að þessum mönnum,“ segir Kári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert