Grunnskólinn og grunnfærni

Lykilatriði í sambandi við færninám er þjálfun og að börn …
Lykilatriði í sambandi við færninám er þjálfun og að börn fái áskoranir miðað við færni, segir Hermundur Sigmundsson í grein sinni. Styrmir Kári

Ef maður skoðar grunnskólann er mjög mikilvægt að hann sjái til þess að börn öðlist grunnleggjandi færni í lestri, skrift, náttúrufræði og stærðfræði. Grunnleggjandi færni er lykilatriði fyrir börn að ná tökum á til þess að geta öðlast þekkingu. Þekking er algjört lykilatriði fyrir framfarir í öllum þjóðfélögum.

Eins og skýringamyndin sýnir eru þessir þættir inni í rauðunni. Hérna er mikilvægt að maður noti þær aðferðir sem rannsóknir sýna að séu þær bestu fyrir nám. Í rannsóknum kemur ein aðferð best út við lestrarkennslu. Það er hljóðaaðferð (eindaraðferð) – bókstaf-hljóð-aðferð. Bókstaf-hljóð-kunnátta er hornsteinn fyrir lestur samkvæmt fremstu vísindamönnum í heiminum á sviði lestrar (Nation, Dehaene, Lyytinen og Tønnesen).

Frábærir kennarar sem hafa unnið lengi við kennslu lesturs styðja einnig notkun hljóðaaðferðar og mikilvægi bókstaf-hljóða-kunnáttu fyrir læsi. Sem sagt að kenna börnum bókstafina og þeirra hljóð, vinna með að lesa tveggja og þriggja stafa orð og síðan fjögurra og fimm stafa orð og stuttar setningar. Þangað til læsi er náð. Þegar læsi er náð er aðaláherslan á að stuðla að aukinni þjálfun barna. Hérna erum við að tala um kennslu byrjenda.

Þegar börn hafa brotið lestrarkóðann, geta lesið orð með 2, 3 og 4 bókstöfum, er höfuðmálið að vekja áhuga þeirra á lestri og fá þau til að lesa eins margar bækur og þau geta. Þar gegna lykilhlutverki bókasöfn bæði skóla og bæjarfélaga – sjáum til þess að börn og unglingar geti fundið bækur við hæfi. Markviss þjálfun er algjört lykilatriði í sambandi við að læra að lesa og að verða góður í lestri. Því lestur er færni og færni þarf að þjálfa til að hún verði betri.

Þau börn sem ekki ná tökum á lestrinum verða að fá aðstoð. Maður verður að finna út hvar þau standa, finna hvaða bókstafi-hljóð þau kunna og sjá til þess að þau læri þá bókstafi-hljóð sem þau ekki kunna. Annað sem er mjög mikilvægt er að þau börn sem ekki fá hjálp heima verða að fá aðstoð i skólanum – þjálfunartíma – með okkar besta fagfólk. Sama á við um þjálfun á handskrift, þar er mikilvægt að vinna með að skrifa alla bókstafina. Það sem er sérstakt með skriftarþjálfun er að sú handskrift sem maður þjálfar, verður sjálfvirk. Það er að segja gæði þeirrar handskriftar sem er orðin sjálfvirk er erfitt að breyta nema með að hefja aftur skriftarþjálfun. Þá þarf sem sagt að brjóta upp „gamla“ munstrið og skapa nýtt munstur.

Her­mund­ur Sig­munds­son, pró­fess­or í lífeðlis­fræðilegri sál­fræði.
Her­mund­ur Sig­munds­son, pró­fess­or í lífeðlis­fræðilegri sál­fræði. Kristinn Magnússon

Í kennslu stærðfræði er einnig mikilvægt að vinna með grunninn. Byrja með að vinna með plús og mínus. Síðan bæta við margföldun og deilingu. Gífurlega mikilvægt er að fylgja hverju barni vel eftir, þannig að það lendi ekki á eftir hinum.

Rannsóknir hafa sýnt að lítil fylgni er á milli ólíkra stærðfræðiþátta hjá 10 ára börnum. Það er að segja þau gætu verið góð í samlagningu (5 + 10) en ekki samlagningu í texta: Óli keypti epli sem kostaði 10 kr. og appelsínu sem kostaði 5 kr. Hversu mikið borgaði Óli?

Hérna er sérhæfing mikilvæg og sýnir mikilvægi sérhæfðrar þjálfunar. Í sambandi við orðadæmi hafa fræðimenn bent á að kannski væri sniðugra að byrja ekki með orðadæmi í 2. bekk, þegar 30% barna eru ólæs, heldur seinna, í lok barnaskólans.

Náttúrufræðikunnáttu verðum við að efla með markvissri kennslu barna frá 1. bekk. Skapa ástríðu fyrir náttúrufræði og umhverfi.

Lykilatriði í sambandi við færninám er þálfun og að börn fái áskoranir miðað við færni.

Eflum grunnleggjandi færni fyrir þekkingarþróun.

Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or í lífeðlis­fræðilegri sál­fræði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert