Stefnt að mönnuðum tunglferðum 2024

Geimfarinn Harrison Schmitt safnar tunglgrjóti í desember 1972 í ferð …
Geimfarinn Harrison Schmitt safnar tunglgrjóti í desember 1972 í ferð Appolo 17. Síðan þá hefur enginn stigið fæti á tunglið. AFP

Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur birt kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra mannaðra tunglferða, sem stefnt er að því að hefjist árið 2024. 52 ár verða þá liðin frá því maður steig síðast fæti á tunglið.

Áætlanir NASA gera ráð fyrir að stofnunin þurfi um 28 milljarða dala (3.800 ma.kr.) framlög á árunum 2021-2025 vegna verkefnisins, en þar af er kostnaður við tunglferjuna sjálfa áætlaður um 16 milljarðar dala (2.200 ma.kr.).

Til þess að áætlanirnar verði að veruleika þarf Bandaríkjaþing að samþykkja fjárveitinguna, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt hana vera forgangsmál. Hefur hann að vísu skipt um skoðun frá því í fyrra þegar hann taldi stofnunina ekki eiga að einbeita sér að tunglferðum.

Jim Bridenstine, forstjóri NASA, sagði í samtali við blaðamenn á mánudag að 3,2 milljarða dala þyrfti á fjárlögum næsta árs til að markmiðið um mannaða tunglferð árið 2024 væri raunhæft. Sagði hann að „pólitísk áhætta“ væri gjarnan stærsta ógnin við verkefni NASA, einkum þegar stutt væri til kosninga. Í embættistíð sinni lagði Barack Obama, þáverandi forseti, til að mynda til hliðar áætlanir um mannaðar ferðir til Mars, sem forverar hans höfðu varið miklu fé í að undirbúa.

Stefnt er að því að geimferjan lendi á suðurpóli tunglsins, en allar Appolo-ferjurnar sem fóru þangað á sjöunda og áttunda áratugnum lentu við miðbaug tunglsins. „Rannsóknirnar sem við myndum gera eru allt aðrar en við höfum áður gert,“ segir Bridentine. „Við verðum að muna að á Appolo-tímabilinu héldum við að tunglið væri skraufþurrt. Nú vitum við að það er mikið af ís og við vitum að hann er á suðurpólnum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert