Verðlaunaðir fyrir að uppgötva lifrarbólguveiruna C

Tveir bandarískir vísindamenn, Harvey Alter og Charles Rice, og Bretinn Michael Houghton fá Nóbelsverðlaunin í læknisfræði í dag fyrir að hafa uppgötvað lifrarbólguveiruna C.

Nóbelsverðlaunanefndin tilkynnti þetta í morgun og segir að þremenningarnir fái verðlaunin fyrir framlag sitt í baráttunni við lifrarbólgu C sem sé meiriháttar heilbrigðisvandamál sem valdi skorpulifur og lifrarkrabbameini meðal fólks um allan heim. 

Lifrarbólga C er bólgusjúkdómur í lifur af völdum smitandi veiru sem kölluð er lifrarbólguveira C. Hún er ein af nokkrum veirum sem þekktar eru að því að ráðast á og valda bólgu í lifrinni. Af öðrum veirum sem þekktar eru að því að valda lifrarbólgu má nefna lifrarbólguveirur A og B. Lifrarbólga C er um þessar mundir einn algengasti lifrarsjúkdómurinn á Vesturlöndum. Talið er að á heimsvísu séu um 130-170 milljónir manna sýktar. Þótt ekki sé um nýjan sjúkdóm að ræða var veiran sjálf fyrst einangruð 1989 og í kjölfar þess þróuð áreiðanleg próf til greiningar. Á Íslandi hafa hátt á annað þúsund manns greinst með sjúkdóminn, segir á vef embættis landlæknis.

Lifrarbólga C smitast fyrst og fremst við blóðblöndun. Algengustu smitleiðirnar eru því þegar sýkt blóð berst frá einum einstaklingi til annars, t.d. þegar fíkniefnaneytendur deila óhreinum sprautunálum og öðrum áhöldum sem sýkt blóð hefur komist í. Fólk getur smitast ef ekki er gætt fyllsta hreinlætis við húðflúr og götun t.d. í eyru. Smit getur einnig borist við blóð- eða blóðhlutagjöf en þar sem allt blóð er skimað eru líkur á að smitast þannig hverfandi. Veiran getur borist milli manna við kynmök en það er talið sjaldgæft (innan við 5%). Sjaldgæft er einnig að veiran berist frá sýktri móður til fósturs (um 5% líkur). Hjá sumum er ekki hægt að finna neina augljósa áhættuþætti fyrir sjúkdómnum.

Lifrarbólga C smitast ekki:

  • við venjulega umgengni og snertingu milli fólks, þ.m.t kossa og atlot þar sem ekki á sér stað „blóðblöndun“,
  • af matarílátum, matargerð eða við það að borða saman,
  • með andardrætti og hósta,
  • í sundlaugum,
  • við brjóstagjöf

Er þetta alvarlegur sjúkdómur?
Þótt flestir finni ekki fyrir bráðri lifrarbólgu veikjast sumir af henni en ná sér svo að fullu á nokkrum vikum eða mánuðum. Þetta er þó fremur undantekning. Flestir sem sýkjast af veirunni fá langvinna lifrarbólgu. Oft er bólgan væg og einkennalaus árum eða áratugum saman. Bólgan getur þó smám saman valdið örmyndun í lifrinni sem síðan leiðir til skorpulifrar og lifrarbilunar. Þeir sem fá skorpulifur eru í aukinni hættu á að fá lifrarkrabbamein.

Einkenni
Flestir hafa engin einkenni og enga hugmynd um að þeir séu smitaðir og sjúkdómurinn uppgötvast síðan fyrir tilviljun, oftast við blóðprufur. Algengustu einkenni eru slappleiki og úthaldsleysi. Önnur einkenni svo sem vöðva- og liðverkir, kviðverkir og húðútbrot eru sjaldgæfari. Sumir veikjast með hita og gulu við smit, en það er undantekning. Oft gera einkenni ekki vart við sig fyrr en eftir mörg ár eða áratugi þegar komin er skorpulifur og lifrarbilun.

Greining
Sjúkdómurinn er greindur með blóðprufum þar sem athugað er hvort veiran sjálf eða mótefni gegn henni eru til staðar. Oftast er byrjað með svokölluð mótefnapróf. Þau verða jákvæð fljótlega eftir smit og endast sennilega ævilangt, jafnvel þótt viðkomandi losni við veiruna. Ef mótefnapróf eru jákvæð er mælt erfðaefni veirunnar í blóði og gefur það til kynna hvort veiran er virk eða ekki. Til þess er notuð nákvæm rannsóknaraðferð sem greinir kjarnsýrur veirunnar. Einnig er hægt að mæla magn veirunnar í blóði. Nokkrir mismunandi undirflokkar eða arfgerðir veirunnar eru til. Þessar arfgerðir er einnig hægt að greina með blóðprufum. Bólga í lifrinni veldur hækkun í blóði á svokölluðum lifrarprófum (ASAT, ALAT). Þessi próf eru notuð til að meta hversu mikilli bólgu veiran veldur.

Meðferð

Lyfjameðferð við lifrarbólgu C er í sífelldri þróun. Miklar framfarir hafa orðið á þessu sviði og til eru mjög öflug lyf við sjúkdómnum. Við mat á því hvort rétt sé að hefja lyfjameðferð er tekið tillit til ýmissa þátta svo sem einkenna, hversu mikil bólga og örmyndun er í lifrinni, heilsufars að öðru leyti og viðhorfa sjúklingsins. Lifrarígræðsla kemur til greina fyrir þá sem eru með langt genginn sjúkdóm og lifrarbilun. Ekki er til bóluefni gegn veirunni.

Ráðleggingar til sjúklinga með lifrarbólgu C

Lifrarbólga C er alls enginn dauðadómur. Jákvætt lífsviðhorf og heilbrigðir lífshættir geta skipt miklu máli. Mikilvægt er að eiga einhvern að sem hægt er að ræða við í trúnaði.
Hægt er að gera ýmislegt til að draga úr lifrarskemmdum af völdum veirunnar svo og til þess að draga úr líkum á að smita aðra:

  • Forðast áfengi. Áfengi eykur enn á lifrarskaða af völdum veirunnar.
  • Borða fjölbreytta og holla fæðu.
  • Fá bólusetningu við lifrarbólgu A og B.
  • Ekki taka lyf nema í samráði við lækni. Jafnvel lyf sem hægt er að fá án lyfseðils geta verið skaðleg þeim sem eru með lifrarsjúkdóma.
  • Eftirlit hjá lækni á 6-12 mánaða fresti. Auk skoðunar eru oft teknar blóðprufur til að meta ástand lifrarinnar.
  • Ekki gefa blóð eða líffæri.
  • Ekki deila með öðrum rakvélum, tannburstum, naglaklippum eða öðrum hlutum sem gætu verið mengaðir af blóði.
  • Sprautufíklar ættu ekki að deila sprautum, nálum eða öðrum áhöldum eða efnum með öðrum.
  • Gæta ábyrgðar í kynlífi.
  • Þeir sem eru í föstu sambandi eru í lítilli hættu á að smita eða verða smitaðir af maka sínum. Sambýlisfólk ætti þó að ræða þessi mál og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig kynlífi er háttað. 
  • Þeir sem eru á lausu ættu að nota smokka við kynmök. Þeir eru einnig góð vörn gegn lifrarbólgu B, HIV og ýmsum kynsjúkdómum.
  • Fíkniefni hafa áhrif á dómgreind og því aukast líkur á óábyrgu kynlífi við neyslu þeirra.

Lifrarbólga C er ekki bráðsmitandi og ekki þarf að forðast venjulegt samneyti við annað fólk. Hægt er að stunda alla venjulega vinnu sem krefst mannlegra samskipta, svo sem umönnun barna og sjúkra.

Patrik Ernfors sést hér með mynd að verðlaunahöfunum fyrir ofan …
Patrik Ernfors sést hér með mynd að verðlaunahöfunum fyrir ofan sig en Ernfors er formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert