Leggja til 60% samdrátt fyrir 2030

Þjóðfánar blakta utan við Evrópuþingið í Strassborg í gær.
Þjóðfánar blakta utan við Evrópuþingið í Strassborg í gær. AFP

Evrópuþingið kaus í dag með því að Evrópusambandið innleiði lagalega bindandi markmið um að ríki sambandsins dragi úr losunn gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir árið 2030, miðað við stöðuna árið 1990. Samykktin er metnaðarfyllri en núverandi markmið sambandsins um 40% samdrátt.

Jytte Guteland, sænskur Evrópuþingmaður sem fer fyrir tillögunni, segir að þingmenn hafi tekið stórt skref í átt að því að Evrópusambandið uppfylli kröfur Parísarsamkomulagsins. Sérfræðingar segja að 55% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 sé nauðsynlegur ætti sambandinu að takast ætlunarverk sitt um kolefnishlutleysi árið 2050.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins, sem í sitja leiðtogar ríkisstjórna allra aðildarríkja, þarf að samþykkja endanlega útfærslu markmiðsins en ólíklegt þykir að samstaða náist um 60 prósenta markmiðið. Metnaðarfull stefna þingsins gæti þó orðið til þess að þrýsta á ráðherraráðið að því er segir í frétt Reuters

Ríflega helmingur ríkisstjórna aðildarríkjanna 27 hefur lýst yfir stuðningi við áform um 55% samdrátt fyrir árið 2030. Meðal þeirra ríkja sem eru mótfallin eru Tékkar, en þá hafa Pólverjar einnig lýst efasemdum um tillöguna og sagt að ítarlegri hagrænna greininga sé þörf. Einróma samþykki þarf fyrir tillögunni innan leiðtogaráðsins.

mbl.is