Að hraða lærdómi – sköpum djúpa þekkingu

Með hraðari og auknum lærdómi margfaldast líkurnar á að þér …
Með hraðari og auknum lærdómi margfaldast líkurnar á að þér gangi vel í skólanum, skrifa Bergsveinn Ólafsson og Hermundur Sigmundsson. mbl.is/Hari

Vissir þú að þú gleymir 75% af upplýsingunum sem þú meðtekur eftir einungis sex daga ef þú hagnýtir þær upplýsingar ekki markvisst áfram með þér? Rannsóknir sýna að nemendur á fyrsta ári í háskóla gleyma 60% af því sem þau lærðu árið áður í framhaldsskóla.

Það er ástæða fyrir því að það er erfitt fyrir okkur að viðhalda því sem við lærum. Þegar við vorum að þróast var mikilvægast fyrir okkur að einbeita okkur að því sem myndi hjálpa okkur að komast af og fjölga okkur eins og að fá nóg af mat, að hafa öruggt búsvæði og maka til þess að fjölga sér. Þannig að heilinn gleymir upplýsingum sem hann þarf ekki strax að nota og þær festast því ekki í langtímaminninu.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík …
Hermundur Sigmundsson er prófessor í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lausnin við að innbyrða og viðhalda upplýsingum, öðlast frekari lærdóm sem hagnýtist í lífinu og verða holdgervingur hugsana sinna er að styrkja taugafræðileg net með markvissri þjálfun yfir tíma.

Lykilatriði er að vera með markmiðin bak við lærdóminn á hreinu. Bæði markmið til lengri og skemmri tíma. Það þarf líka að vita ástæðuna fyrir því að maður er að læra þar sem það er meginhvatinn í að auka við sig þekkingu. Að sama skapi er nauðsynlegt að endurtaka upplýsingar sem maður vill læra reglulega.

Bergsveinn Ólafsson er fyrirlesari með MSc-gráðu í jákvæðri sálfræði og …
Bergsveinn Ólafsson er fyrirlesari með MSc-gráðu í jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði.

Að innleiða lærdóminn í líf þitt er ein leiðin til að viðhalda upplýsingum. Önnur leið er að læra með ákveðnum bilum (e. spaced repetition) sem þýðir að meðtaka upplýsingar í auknu magni með nokkurra daga millibili (meðtaka upplýsingar á einum degi, svo aftur eftir tvo daga, svo fjóra daga og svo átta daga og svo framvegis). Það eru sterk tengsl milli þess að innbyrða upplýsingar með reglulegu millibili og viðhalda lærdómnum sem í þeim upplýsingum felst.

Með því að læra með ákveðnum bilum getum við munað um 80% af upplýsingunum sem við lærum eftir 60 daga – það er mikil bæting. Með því að vinna markvisst meira með það sem maður vill kunna, með ákveðum bilum, aukast líkurnar stórlega á að við innleiðum þann lærdóm í lífið.

Að læra á hagnýtari máta – byrjaðu á að læra kjarna þess sem þú þarft að læra

Hér er gott að nota 80/20-regluna sem kallast Pareto-lögmálið. Það snýst í stuttu máli um að 20% af lærdómi stuðli að 80% af áhrifum/niðurstöðum/bætingum. Við lærdóm getur verið gott að byrja á að einblína á 20% af mikilvægustu upplýsingunum sem þú vilt tileinka þér. Til dæmis í tengslum við lestur liggja oft meginskilaboð (80%) bókarinnar/greinarinnar í 20% af innihaldinu. Aðallærdómurinn felst því í þessum 20%. Ef þú vilt svo læra meira um það sem vekur áhuga hjá þér geturðu látið forvitnina leiða þig áfram.

Að hagnýta lærdóminn í heiminn strax

Prófaðu þig áfram í að vinna með upplýsingarnar sem þú öðlast – þó svo þú vitir ekki allt um það sem þú lærðir strax. Sýndu lærdóminn strax í verki þó svo þú sért ekki með hann allan á hreinu. Lærdómur eykst mikið þegar maður notar upplýsingar strax því þannig lærir maður meira inn á þær. Það að nota þekkinguna og vinna með hana markvisst styrkir tauganetið okkar (snagana) og þannig verður djúp þekking til.

Endurgjöf frá öðrum

Spurðu fólkið í kringum þig, kennarann þinn, vini, starfsfélaga, mentorinn, og fáðu endurgjöf frá þessum einstaklingum. Endurgjöf frá öðrum er algjört lykilatriði. Í því samhengi er sérstaklega mikilvægt að hafa góðan mentor sem getur hjálpað þér að öðlast frekari lærdóm og skilning.

Að skrifa eða tala

Að skrifa eða tala um það sem þú lærir. Það sem getur komið að góðum notum er að loka bókinni þegar maður les (eftir 2-10 blaðsíður) og skrifa allt sem maður man af aðalatriðum, án þess að kíkja í bókina. Þar er reglan bara að skrifa niður án þess að spá í stafsetningu eða málfar. Það er gaman og mikilvægt að tengja það sem þú lærir við þitt eigið líf og hagnýta það þannig.

Að læra af öðrum

Við öðlumst vitneskju með því að læra af öðrum og kenna öðrum. Það hjálpar bæði einstaklingnum sem kennir að styrkja þekkinguna sem hann er með og að kenna hinum á þekkinguna, styrkir hraðari lærdóm. Þess vegna ættir þú að vera opinn fyrir því að kenna öðrum á lærdóminn þinn og að biðja aðra að kenna þér.

Markviss þjálfun (e. deliberate practice) er lykilatriði til að skapa djúpa þekkingu. Það myndar taugafræðilegt netverk og það verða til varanlegar tengingar eftir ákveðinn tíma. Við getum styrkt þekkinguna með því að taka upplýsingar inn og vinna með þær áfram bæði munnlega og skriflega. Lærdómur, aukin þekking og viska geta nýst okkur á fjölda vegu í lífinu. Ef þú getur hugsað, talað og lært á áhrifaríkari máta getur fátt stoppað þig. Það gæti hjálpað þér í ýmissi baráttu í lífinu og sú barátta gæti verið fyrir góðum hlutum. Með hraðari og auknum lærdómi margfaldast líkurnar á að þér gangi vel í lífinu.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólanum. Bergsveinn Ólafsson er fyrirlesari með MSc-gráðu í jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »