Nýtt lofthreinsiver bindur 1 milljón tonna af CO2

Þessi mynd sýnir staðsetningu lofthreinsiversins við Bakka á Húsavík.
Þessi mynd sýnir staðsetningu lofthreinsiversins við Bakka á Húsavík. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland ehf. áformar að reisa lofthreinsiver á Íslandi sem gerir kleift að hreinsa og og binda eina milljón tonna af CO2 (koltvísýringi) úr andrúmslofti. Áætlað er að framkvæmdin kosti um 140 milljarða króna en verið verður starfrækt við Bakka á Húsavík.

Byrjað var á undirbúningi þessa verkefnis fyrir tveimur árum og hefur Carbon Iceland náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering um að nota svokallaða „Direct Air Capture“- tækni sem fyrirtækið hefur þróað.

„Um er að ræða eitt af stærri nýsköpunarverkefnum síðari ára hér á landi en efnahagsleg áhrif verkefnisins geta orðið víðtæk fyrir Ísland. Verkefnið styður mjög við loftslagsmál, eykur sjálfbærni og ýtir undir grænar áherslur og náttúrulega hringrás,“ segir í tilkynningu en aðstandendur Carbon Iceland kynntu verkefnið á blaðamannafundi á Grand hótel í morgun. 

Vatnaskil fyrir Ísland

Hallgrímur Óskarsson, stjórnarformaður Carbon Iceland, segir verkefnið fela í sér vatnaskil fyrir Ísland að mörgu leyti, ekki bara í loftslagsmálum.

„Við erum að fanga eina milljón tonna af koltvísýringi sem er miklu meira magn en Ísland hefur séð til þessa,“ segir Hallgrímur í samtali við mbl.is og bætir við að fyrirtækið muni einnig nota koltvísýringinn sem það bindur til að framleiða hreint, grænt eldsneyti, til dæmis fyrir skip og önnur samgöngutæki. „Það er verið að nota eldsneyti sem krefst þess ekki að það sé tekið jarðefnaeldsneyti úr jörðu,“ segir hann og nefnið að verið sé að endurnýta mengunina. „Það er mun skárra að það sé verið að nota grænt eldsneyti sem skilar ekki meiru út í andrúmsloftið.“

Einnig verður notast við grænt CO2-grunnefni til að byggja upp öfluga matvælaframleiðslu, að sögn Hallgríms, sem gæti opnað á alls kyns iðnað hérlendis tengdan útflutningi, meðal annars á grænmeti.

Hann segir Ísland vera eitt af fyrstu löndunum í heiminum til að nýta sér þessa tækni. Fyrsta lofthreinsiverið var sett upp í Kanada en Bandaríkjamenn og Bretar eru einnig byrjaðir á samskonar verkefni og Ísland.

Aðlagað að íslenskum aðstæðum

Fram kemur í tilkynningu að í byrjun árs hafi Carbon Iceland ehf.  náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering sem hefur þróað og fengið einkaleyfi á öflugri aðferð til að hreinsa mikið magn af CO2 beint úr andrúmslofti. DAC-aðferðin (Direct Air Capture) hefur verið í þróun og prófunum hjá þeim í Kanada í yfir 10 ár en upphafsmaður aðferðafræðinnar er David Keith, prófessor í eðlisfræði og umhverfisvísindum við Harvard-háskóla.

„Carbon Iceland hefur unnið að því undanfarin misseri að aðlaga tækni og aðferðarfræði Carbon Engineering að íslenskum aðstæðum og hefur sú aðlögun snúist um það að nota eingöngu hreina græna raforku í starfsemi lofthreinsiversins. Endanlegri útfærslu varðandi orkumál er ekki að fullu lokið og verður greint frá þeim niðurstöðum síðar. Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið Norðurþing sem miða að því að starfsemi Carbon Iceland verði staðsett á vistvænum iðngarði á Bakka, við Húsavík,“ segir í tilkynningunni.

Kostar um 140 milljarða króna

Áætlað er að framkvæmdin kosti um 140 milljarða króna og eru þá allar þrjár vinnslueiningarnar taldar með: lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti. Árlegar tekjur, þegar starfsemin verður komin í fullan gang, geta numið allt að 50 til 70 milljörðum króna, að stærstum hluta gjaldeyristekjur, segir í tilkynningunni.

Skattspor til ríkis og sveitarfélaga er áætlað um 8 til 10 milljarðar króna árlega. Fyrstu áform félagsins eru að fjármagna verkefnið erlendis frá og eru viðræður um það þegar hafnar. Fyrirhugað er að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starfsemina.

Á að nýtast öllu samfélaginu

„Við sem stöndum að Carbon Iceland ehf. fögnum því mjög að finna hvað margir aðilar hafa haft trú á verkefninu með okkur og hafa staðið þétt við framvindu þess á undanförnum misserum. Verkefnið á að nýtast samfélaginu öllu enda er um að ræða stórt nýsköpunarverkefni, sem getur haft mikil áhrif á loftslagsmál Íslands, með grænar áherslur þar sem hugvit er notað til að fanga mikið magn af CO2 úr andrúmslofti og umbreyta því í efni til matvælaframleiðslu og framleiðslu á grænu eldsneyti,“ segir í yfirlýsingu frá Carbon Iceland. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert