Undirbýr flug á Rauðu plánetunni

Næstu ár verða spennandi fyrir kanadíska jarðvísindamanninn Christopher Hamilton sem leiðir Raven verkefnið þar sem drónaflug NASA á plánetunni Mars er undirbúið. Hann hefur lengi stundað rannsóknir hér á landi og umfangið verður talsvert í Holuhrauni þar sem íslenskir samstarfsaðilar munu koma að.

Sagt var frá styrkveitingu NASA í verkefnið hér á mbl.is á dögunum en Hamilton gegnir stöðu prófessors (Associate Professor) við Geimvísindadeild Háskólans í Arizona. Hann kom fyrst til landsins fyrir 19 árum síðan þegar hann vann að B.Sc. gráðu sinni og hefur komið reglulega síðan. 

Hamilton er staddur hér á landi við undirbúning Raven-verkefnisins og að sjálfsögðu sting ég upp á því að hann hitti mig við Rauðhóla til að ræða um drónaflug á Rauðu plánetunni eða Mars. Þegar ég hitti Hamilton á bílastæðinu við Rauðhóla hefur snjóað lítillega sem hylur rauða litinn á mölinni en ég hafði þó komið auga á einn álitlegan og eldrauðan vegg í fjarska á einum hólnum og bendi Hamilton á hann. „Já keila 57, mér líst vel á það,“ segir Hamilton með sínum mjúka kanadíska hreim. Hann þekkir svæðið greinilega eins og lófann á sér enda kemur í ljós að lokaverkefni hans í grunnnáminu snerist um að rannsaka eldvirkni og samband hennar við snertingu við ís. En rannsóknin fór fram á svæðinu í grennd við Vífilfell. (Ice-contact volcanism in the Vífilsfell Region, southwest Iceland).  

Jarðvísindamaðurinn Christopher Hamilton segir aðstæður í Holuhrauni vera kjörnar til …
Jarðvísindamaðurinn Christopher Hamilton segir aðstæður í Holuhrauni vera kjörnar til að gefa vísindamönnum tilfinningu fyrir því hverju megi búast við á Mars. mbl.is/Hallur Már

Eftir það hélt hann til Havaí þar sem hann stundaði doktorsnám og rannsakaði sprengingar við snertingu hraunkviku og vatns á Jörðinni og Mars. Sem fyrr segir hafa heimsóknirnar til Íslands síðan verið ótalmargar og í myndskeiðinu má sjá hvernig hann nýtir drónamyndir til að gera þrívíddarmyndir, að sjálfsögðu af Keilu 57! 

Hamilton segir íslensku sumrin vera þau bestu sem hann komist í. Hann verður því í kjöraðstæðum þegar hingað til lands taka að streyma tól og tæki sem eiga að leggja grunn að kortlagningu Mars á næstu áratugum. Í sumar er von á tunglbílnum MESR sem er hannaður að kanadísku Geimvísindastofnuninni. Næstu tvö sumur eftir það má svo búast við hátæknilegum drónum á flögri um Holuhraun í æfingum á sýnatöku og kortlagningu. 

Áhugi vísindamanna á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA á jarðfræði Íslands …
Áhugi vísindamanna á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA á jarðfræði Íslands á sér langa sögu. Hér má sjá geimfarana William Anders og Charles Bassett III ásamt nafnlausum þriðja manni skoða grjót á Norðurlandi árið 1965. Ferðir geimfara norður í land voru tíðar í undirbúningi fyrir Appollo-ferðir NASA. Ljósmynd/NASA

Raven dróninn, eða bara Hrafninn, verður búinn svokallaðri Raven Claw sem er griparmur ætlaður sýnatöku með því að grípa grjót og sand. Þá verður hann með leiser-ljós sem mælir vegalengdir, svokallaðri Lidar-tækni. Eitt tækjanna sem kemur til með að verða prófað í Holuhrauni á Hrafninum er svokölluð ofurlitrófsmyndavél (e. hyperspectral imaging camera - betri þýðingar væru vel þegnar!) en hún greinir margar mismunandi bylgjulengdir ljóss. Þá verða gerðar tilraunir með að búa Hrafninn með bor til að ná sýnum úr jörðu. Hvernig endanleg útgáfa á Hrafninum verður kemur svo í ljós þegar fram í sækir en verkefni af þessu tagi eru jafnan hugsuð í áratugum. 

Stór skref í febrúar

Þann átjánda febrúar mun könnunarbíllinn Perserverence lenda á Mars og með honum verður í för þyrlu-dróninn Ingenuity. Á þrjátíu daga tímabili er ætlun NASA-teymisins sem stendur að verkefninu að taka fimm sinnum á loft. Miklar vonir eru bundnar við verkefnið enda er um að ræða fyrsta flug mannkyns á annarri plánetu og kemur það í hlut hins norska Håvard Fjær Grip að stjórna aðgerðum Ingenuity sem verður þó að mestu sjálfsstýrð. Upplýsingarnar sem fást frá því verða ómetanlegar fyrir Raven-verkefnið. Sýnin sem Perserverence mun safna eru svo væntanleg til Jarðar árið 2031 ef allt gengur upp.    

Allt þarf að ganga upp til að Perserverence og Ingenouity …
Allt þarf að ganga upp til að Perserverence og Ingenouity lendi á Mars í næsta mánuði. Myndin sýnir geimfarið sem flytur bílinn og þyrlu-drónann. AFP

Helsta áskorunin við flug á Mars er þunnt andrúmsloftið, sem er einungis 1% af þéttni andrúmloftsins hér á Jörðinni. Þá er aðdráttarafl á Mars einungis um þriðjungur þess sem við jarðarbúar þekkjum. Ingenuity er létt loftfar sem vegur einungis um 1.8 kílógrömm og Hamilton segir það vera mikla áskorun að velja hvaða eiginleika Hrafninn skuli hafa. Best væri ef hægt væri að útbúa dróna með bor sem gæti borað í bergið og náð þannig ómetanlegum jarðsýnum. 

Mikil eftirvænting er fyrir fyrsta flugi mannkyns á annarri plánetu …
Mikil eftirvænting er fyrir fyrsta flugi mannkyns á annarri plánetu sem verður í næsta mánuði gangi allt að óskum. Ingenuity gæti þá aflað upplýsinga um flug á Mars sem myndy reynast Hamilton og samstarfsmönnum hans ómetanlegar. Mynd/NASA


 

mbl.is

Bloggað um fréttina