Sýnir gríðarlega virkni hjá Pfizer meðal unglinga

AFP

Bóluefni Pfizer-BioNTech við Covid-19 sýnir gríðarlega virkni meðal unglinga samkvæmt niðurstöðum klínískra rannsókna. Er vörnin jafnvel enn meiri þegar kemur að börnum á aldrinum 12-15 ára en hjá fullorðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pfizer og fjalla bæði New York Times og Washington Post um málið.

Ekkert barn greindist með Covid-19 eftir að hafa verið bólusett, þau mynda mikið mótefni og enginn upplifði alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar.

Ef þetta reynist rétt þá getur þetta gjörbreytt stöðunni í Bandaríkjunum samkvæmt umfjöllun NYT, það er flýtt ferlinu til eðlilegs lífs hjá milljónum fjölskyldna í landinu. Ef Lyfjastofnun Bandaríkjanna samþykkir markaðssetningu bóluefnisins fyrir þennan aldurshóp megi gera ráð fyrir því að bólusetningar framhaldsskólanema hefjist áður en haustönnin hefst og grunnskólanemar verði bólusettir fljótlega eftir það. 

Upplýsingar um virkni bóluefnisins voru birtar í fréttatilkynningu og þar kemur ekki fram hvenær rannsóknin fór fram. Eins á eftir að yfirfara þessar upplýsingar og þær hafa ekki verið birtar í ritrýndu vísindariti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina