Andúðarhnappur YouTube tekur breytingum

YouTube vill vernda notendur sína gegn áreiti.
YouTube vill vernda notendur sína gegn áreiti. AFP

Myndbandsvefurinn YouTube hefur ákveðið að fjarlægja upplýsingar um fjölda þeirra sem lýsa yfir andúð (dislike) sinni á myndböndum á vefnum. Andúðarhnappurinn (dislike button) verður áfram á sínum stað og eigendur efnis munu áfram sjá fjölda þeirra sem lýsa yfir andúð sinni á myndböndunum. Eina breytingin er sú að aðrir munu ekki sjá upplýsingar um fjöldann.

Forsvarsmenn YouTube segja tilganginn með þessum breytingum að vernda notendur sína gegn áreiti og koma í veg fyrir andúðarherferðir gagnvart einstökum notendum. En borið hefur á því að andúðarhnappurinn hafi verið notaður til að taka niður eða áreita nýja notendur sem eru að prófa sig áfram með efni á vefnum.

Tilraunir sýndu að það dró úr áreiti

Það hafi komið í ljós í tilraunastarfsemi fyrr á þessu ári að með því að fjarlægja upplýsingar um fjölda þeirra sem lýsa yfir andúð, dró úr áreiti á nýja og minni notendur og andúðarherferðum gegn þeim fækkaði.

Forsvarsmennirnir segjast þó vita að ekki séu allir sáttir við þessar breytingar, enda hafi margir nýtt sér upplýsingar um fjölda þeirra sem lýst hafa yfir andúð, til að meta hvort þeir eigi að horfa á myndbönd eða ekki. YouTube vilji hins vegar skapa vettvang þar sem komið er fram við notendur af virðingu og að þeim finnist þeir öryggir með að tjá sig.

Breytingarnar taka gildi strax í dag og segja forsvarsmenn þetta aðeins eitt skref af mörgum í því að draga úr áreiti. Vinnunni sé ekki lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert