Nýju ljósi varpað á Kötlugosið

Gosmökkur yfir Höttu sem er svört af gjóskufalli. Myndin var …
Gosmökkur yfir Höttu sem er svört af gjóskufalli. Myndin var líklega tekin fyrir hádegi 24. október 1918. Ljósmynd/Þorlákur Sverrisson

Kötlugosið 1918 er á meðal stærstu eldgosa sem orðið hafa í eldfjallinu síðustu 1.000 ár. Gjóskulagið sem féll þá er það stærsta hér á landi frá Öskjugosinu 1875, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við HÍ og formanns Jöklarannsóknafélags Íslands.

Helmingurinn af efninu var loftborin gjóska og féll helmingurinn af henni á sjálfan Mýrdalsjökul sem umlykur Kötlu. Hinn helmingurinn var vatnsborinn og dreifðist með jökulhlaupinu. Þess má geta að Öskjugosið 1875 er talið vera mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi á síðustu 500 árum.

Nýjasta hefti Jökuls (2021), tímarits Jöklarannsóknafélagsins og Jarðfræðafélags Íslands, geymir nýjar fræðigreinar um Kötlugosið 1918 og einnig um nýlegar íssjármælingar á Kötlu sem sýna landslagið undir jöklinum.

Einnig er þar fjallað um Kötlumyndir Þorláks Sverrissonar ljósmyndara (1875-1943) sem tók myndir af gosinu og afleiðingum þess. Myndirnar þykja verðmætar heimildir og sýna m.a. að á tímabili var gos á tveimur stöðum með um eins kílómetra millibili. Gosstöðvarnar færðust til og gera myndirnar kleift að miða staðsetningu þeirra út.

Auk Kötlu er fjallað um Jöklarannsóknafélagið í Jökli. Félagið varð 70 ára árið 2020. Þá er þar að finna fleiri greinar um jökla, jarðfræði og félagsstarfið.

Samfellt kort af gjóskulaginu

Kötlugosið 1918 stóð í 23 daga. Það hófst 12. október og því lauk 4. nóvember.

„Greinarnar í Jökli 2021 varpa nýju ljósi á Kötlugosið 1918. Þarna kemur í fyrsta skipti fram samfellt kort af gjóskulaginu sem myndaðist,“ sagði Magnús Tumi. „Guðrún Larsen tók við af Sigurði Þórarinssyni við að mæla gjóskulög hér á landi og á hún stærstan þátt í því korti sem birt er í greinunum.“

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lykillinn að heildstæðu korti var að tengja saman hundruð mælinga sem gerðar hafa verið um allt land frá 1939 og mælingar sem gerðar voru 2012 og 2018 í skriðjökulsporðum Mýrdalsjökuls. Síðan þurfti að reikna út hvar á jökulinn gjóskan féll í gosinu en ísskriðið hefur flutt hana um allt að 15 km síðan 1918.

Einnig voru mælingarnar tengdar við ljósmyndir sem teknar voru á gostímanum og skömmu eftir gosið og sýna mjög þykka öskubunka nærri gígunum.

Mælingarnar sýna að um einn rúmkílómetri af loftborinni gjósku kom upp í Kötlugosinu 1918. Gosið var mjög stór viðburður og mesta sprengigos á 20. öld hér á landi. Loftborni hluti Kötlugossins var heldur stærri en Grímsvatnagosið 2011, sem var stórt gos, margfalt stærri en Heklugos á 20. öld og t.d. 3-4 sinnum stærri en Eyjafjallajökulsgosið 2010.

Í grein Guðrúnar Larsen o.fl. í Jökli kemur m.a. fram að Kötlugjóskan féll víða um land frá byrjun gossins og til 1. nóvember. Skaftártunga varð verst úti vegna gjóskufallsins. Jörðin Svartinúpur fór alveg í eyði og þrjár jarðir um tíma. Öskufalls varð m.a. fjórum sinnum vart í Reykjavík meðan á gosinu stóð.

Þar kemur einnig fram að Kötlugjóskan frá 1918 sé illa varðveitt í jarðvegi. Þegar haustið 1918 var hún farin að fjúka og skolast burt í rigningum. Gjóskan huldist fljótlega snjó á Mýrdalsjökli og er nokkuð vel varðveitt þar.

Jökulhlaupið sem varð 1918 færði ströndina tímabundið fram um fjóra km miðað við strandlínuna frá 1904 og myndaði Kötlutanga.

Vettvangur vísindafólks og áhugafólks um jöklana

Jöklarannsóknafélag Íslands var stofnað 22. nóvember 1950 og er því orðið 71 árs. Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið formaður þess í 24 ár og skrifar afmælisgrein um félagið í Jökul 2021. Tímaritið hefur komið út allt frá árinu 1951.

„Jöklarannsóknafélagið á enn mikið erindi. Í því vinnur saman vísindafólk og áhugafólk um jökla sem tekur þátt í starfi og ferðum félagsins. Þessi samvinna hefur gert marga hluti mögulega sem annars hefðu orðið æði erfiðir,“ sagði Magnús.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert