„Google vilja bara gera þetta sjálfir“

„Þetta er dálítið snúið og gerist ekki einn, tveir og þrír,“ segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar hjá Vegagerðinni um að setja upplýsingar frá stofnuninni inn á Google Maps um ástand vega og framkvæmdir. 

Nýlega setti Vegagerðin vefþjónustur sínar í DATEXII-staðal sem er samevrópskur staðall um upplýsingar af þessu tagi og segir Pétur það vera eitthvað sem Google gæti nýtt sér.

DATEXII-staðallinn er notaður til að samræma hvernig umferðargögn eru birt svo að fyrirtæki eigi auðveldara með að sækja þau frá öllum löndum innan Evrópu.

„Fyrirtæki eins og TomTom og Waze eru oft með upplýsingar frá okkur í leiðsögutækjum sínum og setja svo ofan á Google Maps. Fyrirtækið Here er líka að vinna í því að taka gögn frá okkur,“ bætir Pétur við.

Vegagerðin segir langtíma verkefni að setja upplýsingar um leiðakerfi inn …
Vegagerðin segir langtíma verkefni að setja upplýsingar um leiðakerfi inn á Google Maps. mbl.is/sisi

Langtíma verkefni

Spurður hvort Vegagerðin fái margar ábendingar, sér í lagi frá ungu fólki, um að gera upplýsingar aðgengilegri, þá til dæmis með því að setja inn á Google Maps, svarar Pétur játandi en segir að um langtímaverkefni sé að ræða.

„Við erum mjög meðvituð um þetta, en við höfum átt í vandræðum með að tryggja að þeir séu með rétt vegakerfi, en þeir hjá Google vilja bara gera þetta sjálfir.“

Vegagerðin er að vinna að því núna í samstarfi við Landmælingar að útbúa einn samræmdan íslenskan kortagrunn sem sýnir alla vegi til að auðvelda þeim ýta upplýsingunum að fyrirtækjum eins Google en Pétur segir ferlið vera snúið og að það muni taka tíma.

mbl.is
Loka