Ný lyfjameðferð sem dregur úr taugaskaða

Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Salvör …
Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Salvör Rafnsdóttir og Kijin Jang, doktorsnemar við sömu deild, hlutu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ í morgun. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ný lyfjameðferð sem dregur úr taugaskaða við alvarleg veikindi hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ í morgun.

Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Salvör Rafnsdóttir og Kijin Jang, doktorsnemar við sömu deild eru aðstandendur verkefnisins en þau hlutu 2,5 milljónir króna í verðlaun.

Lyfjameðferðin miðar að því að draga úr taugaskaða við alvarleg veikindi með því að virkja kæliferil frumna í mannslíkamanum, að því að fram kemur í tilkynningu frá háskólanum.

Þar segir að meðferð lækna á gjörgæsludeildum þar sem kjarnhitastig sjúklinga er lækkað til þess að draga úr alvarlegum áföllum sé erfið í framkvæmd og fylgi henni oft alvarlegar aukaverkanir.

„Nýlegar rannsóknir benda til þess að kæliferill frumna virkist við kælingu og miðli taugaverndandi áhrifum kælingar. Aðstandendur verkefnisins hafa fundið lyf sem virkja kæliferilinn og talið er að gæti gagnast sjúklingum,“ segir í tilkynningunni.

Allir verðlaunahafar Vísinda- og nýsköpunarverðlauna HÍ.
Allir verðlaunahafar Vísinda- og nýsköpunarverðlauna HÍ. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Þrjú önnur verkefni verðlaunuð

Þrjú önnur verkefni voru einnig verðlaunuð en þau snúa að þróun umhverfisvænni rafhlaðna, kennsluefni til að efla orðaforða og lesskilning barna á Íslandi og sáraumbúðum sem nema gróanda í sárum með snjalltækni.

mbl.is