Evrópusambandið rannsakar TikTok

Thierry, Breton, fram­kvæmda­stjóri markaðsdeild­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, segir TikTok hafa sérstöku hlutverki …
Thierry, Breton, fram­kvæmda­stjóri markaðsdeild­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, segir TikTok hafa sérstöku hlutverki að gegna í verndun ólögráða barna á netinu. Samsett mynd

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið formlega málsmeðferð í máli sínu gegn samfélagsmiðlinum TikTok. Rannsókn Evrópusambandsins snýr að meintum brotum samfélagsmiðilsins á reglum til að vernda ólögráða börn á netinu.

Um er að ræða brot á löggjöf um stafræna þjónustu (DSA-löggjöfin). Evrópusambandið hefur skilgreint TikTok sem „mjög stóran vettvang á netinu“ síðan 25. apríl 2023 og þarf miðilinn því að uppfylla ákveðin skilyrði sem eru sett fram í DSA-löggjöfinni. 

Skylda að vernda ólögráða börn

Í máli Evrópusambandsins segir Thierry, Breton framkvæmdastjóri innri markaðar Evrópusambandsins, verndun ólögráða barna forgangsverkefni DSA-löggjafarinnar.

„Sem vettvangur sem nær til milljóna barna og unglinga, verður TikTok að uppfylla DSA-löggjöfina að fullu og hefur miðilinn sérstöku hlutverki að gegna í verndun ólögráða barna á netinu.“

Þá hefur hann einnig tjáð sig um málið á samfélagsmiðlinum X. Þar segir hann rannsókn hafna á TikTok vegna gruns um brot á gagnsæi og skyldum til að vernda ólögráða börn. 

Áhyggjur af algóritma miðilsins

Evrópusambandið hefur áhyggjur af því að TikTok geri ekki nóg til að takmarka neikvæð áhrif miðilsins á ungt fólk.

Helstu áhyggjurnar snúa að svokölluðum „kanínuholu“ áhrifum. Það er þegar notendum er sýnt öfgafyllra efni byggt á algóritma samfélagsmiðilsins. Einnig telur framkvæmdastjórnin leiðir samfélagsmiðilsins til að staðfesta aldur notenda sinna ekki vera skilvirkar. 

Ákvörðun um formlega rannsókn byggir á bráðabirgðarannsókn framkvæmdastjórnar. Þar var áhættumatsskýrsla sem TikTok sendi frá sér í september 2023 greind, sem og upplýsingar um ólöglegt efni, verndun ólögráða barna og gagnaaðgangur á miðlinum.

Háar sektir fyrir brot á löggjöfinni

DSA-löggjöfin tók gildi á síðasta ári fyrir stærstu netfyrirtæki heims. Hún nær meðal annars til samfélagsmiðlana TikTok, X, Facebook og Instagram. Löggjöfin krefst meðal annars þess að fyrirtæki grípi til frekari aðgerða til að auka eftirlit með á efni á netinu.

TikTok getur átt yfir höfði sér sekt, sem nemur allt að 6% af alþjóðlegri veltu fyrirtækisins, ef það er fundið brotlegt gegn DSA-löggjöfinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert