Staða forseta og stjórnar óbreytt

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagðist á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag  telja, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin hefði hvorki áhrif á stöðu forseta né ríkisstjórnarinnar.

Vísaði hann til þess að engin ríkisstjórn ríkja Evrópusambandsins hefði sagt af sér þótt Maastricht-sáttmálinn hefði verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Líkti Ólafur Ragnar því við tilræði við þjóðaratkvæðagreiðslu ef embætti forseta eða líf ríkisstjórnar væri hengt þar við. 

Ólafur Ragnar sagði að sífellt fleiri mál gengju þvert á flokka. Með því að blanda  þjóðaratkvæðagreiðslu við tilvist forseta eða ríkisstjórna væri verið að menga eða spilla þjóðaratkvæðagreiðslu sem tæki lýðræðisins.

mbl.is