Atkvæðagreiðslan sérkennileg um margt

Ólafur Þ. Harðarson.
Ólafur Þ. Harðarson. mbl.is/Golli

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í Silfri Egils í dag, að þjóðaratkvæðagreiðslan hefði verið sérkennileg um margt en jafnframt merkilegur áfangi því þar hefði í fyrsta skipti verið hafnað lögum sem Alþingi hefði sett.

Ólafur sagði, að það væri ekki venjan í þjóðaratkvæðagreiðslu, að  í raun væri  aðeins einn kostur í boði því enginn hefði mælt með þeim kosti að samþykkja Icesave-lögin. Atkvæðagreiðslan hefði hins vegar farið fram í samræmi við fyrirmæli stjórnarskrárinnar.

Ólafur sagði, að staða ríkisstjórnarinnar fyrir atkvæðagreiðslunnar hefði verið erfið, hún sé áfram erfið og hafi væntanlega ekki styrkst við þetta. Það mætti spyrja sig hvers vegna ríkisstjórnin hefði ekki fellt Icesave-lögin úr gildi til að komast hjá atkvæðagreiðslunni í ljósi þess að komnir væru betri kostir en vera mætti, að ríkisstjórnin hefði ekki talið sig hafa þingmeirihluta fyrir því.

Um stöðu ríkisstjórnarinnar sagði Ólafur, að hann væri ekki viss um að þessi niðurstaða myndi valda fylgishruni stjórnarflokkanna; fylgi þeirra í skoðanakönnuninni hefði verið mjög stöðugt í kringum 48% undanfarið. Meginvandi ríkisstjórnarinnar sé að í VG hafi verið ágreiningur um stjórnarstefnuna. Líka séu mjög erfið mál framundan, efnahagsmál, niðurskurður í ríkisfjármálum og ágreiningur milli flokkanna um stóriðju.   

mbl.is