Kjörsókn 66% í Suðurkjördæmi

Kjósandi kemur út úr kjörklefa í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Kjósandi kemur út úr kjörklefa í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin í gær var 66,22% í Suðurkjördæmi en lokatölur þaðan bárust nú undir morgun. Þar voru greidd 21.647 atkvæði og þar af sögðu 300, eða tæplega 1,4%, já, 20.613 eða 95,2% sögðu nei, auðir seðlar voru 679 og ógildir 55.  Lokatalna er ekki að vænta úr Norðausturkjördæmi fyrr en síðdegis og  lokatölur úr Norðvesturkjördæmi hafa heldur ekki borist.

Í Reykjavík norður var kjörsókn 58,6%. Þar greiddi 25.781 atkvæði og sögðu 561 eða 2,1% já og 23.548 eða 91,3% sögðu nei. Auðir seðlar voru 1546 og ógildir 126 eða samtal tæplega 6,5%.   

Í Reykjavík suður var kjörsókn 62%. Þar greiddu 2,2% atkvæði með lögunum, 92% sögðu nei en 5,7% skiluðu auðu eða gerðu atkvæðin ógild.

Í Suðvesturkjördæmi var kjörsókn 65,7%. Þar sögðu 94,6% nei í atkvæðagreiðslunni.

Þegar 14.000 atkvæði höfðu verið talin í Norðausturkjördæmi höfðu 243 eða 1,7% sagt já, 12.909 eða 92,2% sagt nei. Auðir seðlar voru 803 og ógildir 45, samtals um 6%. Talningu  var frestað um klukkan 5 í nótt þar til fært verður fyrir flug til Grímseyjar sem verður í fyrsta lagi upp úr hádegi í dag samkvæmt veðurútliti.

mbl.is

Bloggað um fréttina