Samfylkingin vill þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnunarkerfið

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra ávarpaði fund flokksstjórnar Samfylkingarinnar ...
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra ávarpaði fund flokksstjórnar Samfylkingarinnar í gær mbl.is/Ómar

Samþykkt var samhljóða á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um íslenska fiskveiðistjórnkerfið. Tryggt verði í nýjum lögum að eðlilegur arður af fiskveiðiauðlindum Íslands verði nýttur í almannaþágu en ekki í þágu sérhagsmuna eins og hingað til. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum Þjóðareign.

Fundinn sóttu þrír stjórnarmenn úr Þjóðareign - samtökum um auðlindir í almannaþágu, þeir Eiríkur Stefánsson, Lúðvík Kaaber og Þórður Már Jónsson. Þeir lögðu fram tillögu um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um fiskveiðistjórnkerfið á Íslandi. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða.
 
1. Flokksstjórn Samfylkingarinnar styður hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um íslenska fiskveiðistjórnkerfið.
 
2. Nýtt fiskveiðistjórnkerfi verði byggt á atvinnufrelsi og mannréttindi verði virt í samræmi við álit sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sendi íslensku ríkisstjórninni í október 2007.
 
3. Tryggt verði í nýjum lögum að eðlilegur arður af fiskveiðiauðlindum Íslands verði nýttur í almannaþágu en ekki í þágu sérhagsmuna eins og hingað til.
 
 Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingar ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar á fundinum þegar hún lýsti því yfir í ræðu sinni að hún telji það vera góða „leið til þess að útkljá áratuga deilur um innköllun aflaheimilda og endurúthlutun þeirra að láta kjósendur um að leiða málið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu". Þá sagði Jóhanna í lokaorðum sínum á fundinum að möguleg þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram næsta haust samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnlagabreytingar.

mbl.is