Spúnninn bannaður í Soginu

Það er fallegt við Sogið.
Það er fallegt við Sogið. Mynd: Bram Zomers

Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum á miðvikudag að einvörðungu verði heimilt að veiða á flugu á svæðum félagsins í Soginu. Þar með heyrir spúnninn sögunni til í þessu mikla vatnsfalli.

Nokkrar deilur hafa sprottið vegna Sogsins og lét Árni Baldursson, landeigandi Ásgarðslands við Sogið, í sér heyra á Facebook þar sem veiðimenn í Bíldfellslandi, sem er gegnt Ásgarði, höfðu farið yfir miðlínu og veitt á spún í hans landi. Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði í samtali við Sporðaköst að stjórn félagsins liti það alvarlegum augum ef menn fylgdu ekki veiðireglum. Stjórn félagsins væri að kanna þessi tilvik og myndi funda með viðkomandi aðilum.

„Það er hins vegar ekki sanngjarnt að halda því fram að Stangaveiðifélagið sé ekki að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu Sogsins. Núverandi stjórn félagsins hætti t.a.m. sölu á vorveiðihollum til að vernda hryggningastöðvar laxins í Bíldsfelli. Til að koma í veg fyrir að menn séu að traðka á hrognum. Við erum með sleppiskyldu á öllum laxi í Soginu á okkar svæðum og því verður haldið áfram,“ sagði Jón Þór. Þá hafi SVFR ráðfært sig við ýmsa sérfræðinga og fundað með aðilum sem hagsmuna hafi að gæta á vatnasvæðinu.

Hann segir ljóst að koma þurfi á reglum varðandi vaðlínur á þeim svæðum þar sem menn veiða á gagnstæðum bökkum, þ.e. í ljósi ýmissa venja sem virðast hafa myndast í gegnum árin, bæði hvað varðar Ásgarðs- sem og Bíldsfellslandið. Ávallt verði þó að virða landslög. „Við þurfum að setjast niður með Árna og finna út úr þessu í sátt og samlyndi. Ég trúi ekki öðru en að viðunandi niðurstaða finnist fyrir alla í þessu máli, enda vilja báðir aðilar framgang Sogsins sem mestan.“

Jón Þór segir ekki komnar lokatölur af svæðum félagsins í Soginu en veiðitölur í Ásgarðslandi sýni svart á hvítu hversu miklu meiri laxgengd hafi verið í Sogið. Síðasta ár var mjög lélegt í Soginu þegar einungis um hundrað laxar veiddust. Ljóst er að veiðin hafi margfaldast milli ára.

Varðandi net í Hvítá og Ölfusá segist Jón Þór vonast til að niðurstaða landeigenda frá síðasta aðalfundi standi og netin fari ekki niður næsta ár sem og komandi ár. „Fiskistofa er að skoða þetta mál og vonandi verður niðurstaðan sú að þessi ákvörðun standi,“ sagði Jón Þór Ólason í samtali við Sporðaköst.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert