Kóngurinn fékk tuttugu pundara

Björn K. Rúnarsson prýðir forsíðu Sportveiðiblaðsins.
Björn K. Rúnarsson prýðir forsíðu Sportveiðiblaðsins. Ljósmynd/ES

Í nýútkomnu Sportveiðiblaði segir Björn K. Rúnarsson, leigutaki og leiðsögumaður í Vatnsdalsá frá draumavaktinni sem hann átti með Haraldi Noregskonungi á sínum tíma. Haraldi var boðið í veiði í Vatnsdalnum og það kom í hlut Björns að vera leiðsögumaðurinn hans. Kóngurinn kom aðeins á eftir öðrum gestum og var Hnausastrengur geymdur fyrir hann. Fyrsta spurning Bjössa til kóngsins var; „Hvernig á ég að ávarpa þig?“ Hann svaraði að bragði. Þegar við erum komnir í vöðlur þá erum við jafningar.

Í Hnausastreng byrjaði svo túrinn í fylgd norskra hermanna og víkingasveitarinnar íslensku. Fljótlega setti Haraldur í vænan lax og landaði eftir mikinn bardaga. Var hann rétt rúmlega hundrað sentímetra langur.

Þegar þeir keyrðu burt frá veiðistaðnum til að fara í hús sjá þeir hvar fálki steypir sér á rjúpu og rífur hana svo í sig í framhaldinu. Eftir að hafa fylgst með þessu í drjúga stund leit Noregskonungur á Bjössa og spurði; „Hvað ætlarðu svo að sýna mér á morgun?“ Báðir sprungu úr hlátri, enda þvílík vakt að baki að hún yrði aldrei toppuð.

Sportveiðiblaðið er að vanda efnismikið og er þar fjallað um veiði á Íslandi og í öðrum heimsálfum. Náttúrubarnið síkáta Jógvan Hansen er í viðtali og rætt er við nokkra af frammámönnum í stangaveiði á Íslandi. 

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is